English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Skóli

Ný stelpa komin í bekkinn

Hæ. Það var að byrja ný stelpa í bekknum mínum og hún er ÓÞOLANDI. Hún lýgur í öðru hverju orði, reykir í frímínútunum (sem kennararnir gera EKKERT útaf, hún hefur EINU sinni verið skömmuð en kennarinn okkar talaði alvarlega um þetta við okkur og hálf skammaði okkur) og svo vill enginn stitja hliðina á henni útaf maður er að kafna úr reykingalykt (og já, hún er ekkert að reyna að fela lyktina). Starfsfólkið elskar hana útaf hún sleikir allla upp (hún sagði mér það einu sinni t.d. að hún væri að sleikja upp enskukenarann til að fá betri einkunnir). Svo hrækti hún einu sinni í andlitið á vini mínum, sem kvartaði í kennarann sem talaði aðeins við hana og ekkert meir. Hún er að MONTA sig yfir því að hún sé fyrrverandi hasshaus og er alltaf að drulla yfir okkur (bekkinn) segja hvað við séum barnaleg og þannig. Hún er beinlínis það sem á íslensku kallast [...]. Ein stelpa sem við skulum kalla X sat hliðina á henni og þær voru eitthvað að tala um kennarasleikjur. Hún sagði "já það er náttlega bara ógeðslegt þegar nemendur sofa hjá kennurum til að hækka einkunnirnar" og þá sagði X "jájá segir ein" og þá brjálaðist hún og fór að grenja og fór heim. Ég var að tala á msn við fyrrverandi bekkjarsystur hennar sem sagði að hún hefði alltaf verið svona.

Komdu sæl

Ef þér og bekkjarfélögum þínum finnst umsjónarkennarinn ykkar ekki taka nægilega vel á hegðun stúlkunnar skuluð þið endilega segja honum það.

Það er mikilvægt að þið ræðið þetta við foreldra ykkar. Þeir geta svo haft samband við umsjónarkennarann eða annan starfsmann skólans. Þetta er alveg mál sem á heima á borði hjá skólastjóranum eða aðstoðarskólastjórarum og ef þið viljið ræða þetta við hann skuluð þið endilega gera það.

Þið eigið rétt á að hafa vinnufrið í skólanum og þið eigið rétt á því að ykkur líði vel í skólanum. Nýja stelpan hefur auðvitað líka rétt á að vera í skólanum en kannski þarf hún meiri aðstoð og stuðning en hún er að fá núna. Hún er e.t.v. óörugg að koma ný í bekkinn og hegðar sér þess vegna svona furðulega til að vekja athygli á sér og eignast félaga. Það er stundum þannig að krökkum sem líður illa finnst þeir þurfa að vera andstyggilegir við aðra og setja sig á hærri stall en hinir til að fela eigin vanlíðan. Það er auðvitað óásættanlegt að hún sé að reykja í frímínútum og að hún komi svona illa fram við skólafélaga sína. Þessi stelpa þarf á hjálp að halda til að læra að koma vel fram við aðra.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli