English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Fjölskylda

Ábyrgð foreldra

Hver er ábyrgð foreldra?

 Komdu sæl

Ábyrgð foreldra er mikil og þess vegna er þetta svar frekar langt.

Hugtakið forsjá lýsir sambandi foreldra og barns frá fæðingu barnsins og þar til það verður 18 ára, en þá verður barn lögráða. Segja má að hugtakið forsjá sé þríþætt.

Í fyrsta lagi felur það í sér rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns en í því felst m.a. réttur foreldra til að ráða dvalarstað barns síns, skólagöngu, tómstundum og öðrum þáttum er snerta líf þess. 

Í öðru lagi felur hugtakið í sér skyldur foreldra til að fara með forsjána sem merkir að foreldrum ber að tryggja bæði efnalega og andlega velferð barns síns.  Þeim ber að sjá til þess að barnið hafi fullnægjandi húsaskjól, fæði og klæði og að það búi almennt við þroskavænleg skilyrði. Þá ber foreldrum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.  Foreldrar mega sjálfir ekki heldur beita barn sitt hvers konar ofbeldi eða sýna því vanvirðingu. 

Í þriðja lagi tekur hugtakið forsjá til réttar barnsins til forsjár. Það þýðir að foreldrar barns eiga að annast persónuleg mál þess þar til barnið verður 18 ára. Í uppeldinu eiga foreldrar alltaf að hugsa um hagsmuni og þarfir barns síns og sýna því umhyggju og nærfærni. Foreldrar eiga að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.

Í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003  er fjallað um forsjárhugtakið og inntak þess. Kíktu hér til að skoða það betur.

Einnig er fjallað um forsjárskyldur foreldra í 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/200.

Þetta er svona í grófum dráttum hvað felst í ábyrgð foreldra. Foreldrarnir bera því mjög ríka skyldu á ýmsum sviðum. Þeir eiga að gæta hagsmuna barna sinna á ýmsum sviðum samfélagsins, t.d. þegar kemur að fjölskyldunni, skólanum, frítímanum, vinnu, fjármálum, persónulegum málum, slysavörnum og forvörnum gegn ýmsu sem miður getur farið hjá börnum eins og vímuefnaneyslu og afbrotum.

Foreldrum ber að fylgjast með því hvernig börnum sínum gengur í daglega lífinu og hvernig þeim líður. Foreldrar eiga að hjálpa börnunum og leiðbeina þegar þörf er á. Það geta þeir best gert með því að verja tíma með börnum sínum.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Fjölskylda