English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Fjölskylda

Veit ekki hvort ég má segja öðrum að bróðir minn er samkynhneigður

Halló. Stóri bróðir minn er samkynhneigður, sem er ekkert mál mig fyrir mig og ég elska hann og allt það. Málið er bara það að mamma og pabbi eru þannig að þau segja aldrei neitt. Þau elska hann alveg og virða og eru í '78 samtökunum en málið er að engin annar í fjölsk. veit það held ég. Alla vegna vita amma og afi það ekki. Amma min spurði um daginn mig hvort hann ætti kærustu og ég sagði bara nei. Hvað á ég eigilega að segja ? Svo er fullt af fólki að spyrja mig hvort hann sé hommi og ég veit ekkert hverju ég á að svara. Ég meina, ég skammast mín ekkert en samt veit ég ekki hverju ég á að svara.

Svo tala sumir í bekknum minum um "ógeðslega homma" og þannig og ég fer í hnút, langar mest að fara að grenja eða brjálast. Kennararnir hafa tekið eftir því og skamma þá og þannig. En bara...t..d sagði vinkona min sem veit ekki að hann er hommi, að henni fyndist hommar ógeðslegir. Og ég varð auðvitað sár og reið og spurði af hverju, og hún hálf svaraði ekki. ég svaraði með einhverju og hún hefur ekki sagt neitt síðar. Svo t.d. talar einn strákur illa um homma en hann veit ekki að stóri bróðir hans er hommi og það má víst ekki segja honum það vegna þess að hann lítur upp til hans. Hvað á ég eigilega að gera? Ég skammast min ekkert, en bara....

Komdu sæl

Það er skiljanlega óþægilegt að vita ekki hver má vita hvað um bróður þinn.

Einfaldast fyrir þig væri nú bara að spyrja bróður þinn hvað honum finnst um það að aðrir viti um að hann sé samkynhneigður. Kannski finnst honum þetta viðkvæmt mál og vill e.t.v. sjálfur fá að segja ömmu ykkar og afa frá því.

Það væri líka örugglega gott ef þú fengir foreldra þína og stóra bróður til að setjast niður með þér í smástund til að útskýra hvort það sé eitthvað sem þau vilja ekki að aðrir viti eða hvort þeim sé sama að þú talir óhindrað um bróður þinn. Það er yfirleitt best að koma hreint fram og vera ekki að fela hlutina.

Það er því miður ennþá nokkuð um fordóma gegn samkynhneigðu fólki. Ástæða fyrir fordómum er þekkingarleysi en oft líka hugsunarleysi. Þeir sem nota orð eins og hommi í niðrandi merkingu gera sér kannski ekki grein fyrir því að það geti sært fólk í kring um þá.

Þú gætir líka haft samband við Samtökin 78, www.samtokin78.is, og athugað hvort það sé einhvern stuðning að finna þar fyrir systkini samkynhneigðra.

Annars er gott að heyra hvað þú talar um bróður þinn af miklum kærleika.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda