English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Ég held að einn gangavörður í skólanum sé barnaperri

Ég er með ett vandamál. ég held að einn gangavörður í skólanum minum sé barnaperri. Hann er frekar gamall, um sextugt, og hann horfir frekar undarlega á stelpur í 8-10 bekk. Hann sló einu sinni í rassinn á bekkjarsystur minni og ég fraus. Ég ætlaði að hella mér yfir hann en þá var hann farinn. Hann, ég og bekkjarsystir min vorum einu sinni ein á gangi og hann sló svona út í loftið nálægt henni og "óvart" strauk fingrunum á brjóstin á henni. Ég sá það reyndar ekki en hun var í sjokki. Hann fór einu sinni inn í kvennaklefann í leikfimi fyrir svona 10 árum og mer finnst mjög óþæginlegt að vera inn í leikfmisiklefanum við tilhugsunina. Hann er líka einn af þeim sem ekki er hægt að tala við. Einu sinni var hann með símann sinn og vinkona min spurði hann hvernig tegund siminn væri og hann tók mynd af henni með honum og annarri stelpu og neitaði að eyða þeim. Svo stuttu síðar tók stelpa í c.a. 5 bekk gsm af honum í gríni og hann brjálaðist og hun kom til mín og sagði að það væri mynd af stelpu í 8 bekk á sjánum og svo á litla skjánum var mynd af stelpu í 6 bekk sem eru ekki skyldar honum á neinn hátt. Ég heyrði nokkra stráka í 10 bekk tala saman um hann og hann er með krakka í 4-5 bekk á msn. Þó hann sé sjaldan inná því. Það voru líka einu sinni stelpur í 8 bekk að faðmast og hann benti á þær og sagði "Sjáiði lessurnar faðmast" svo einu sinni var vinkona min á klósettinu í skólanum, en að vísu var hún búin en hurðin var læst, hann labbaði inn með skrúfjárn og opnaði inn til hennar og brosti bara og sagði "fyrrigefðu" svo einu sinni læsti hann tvær stelpur í 5 bekk inn í herbergi með sér. Ég veit ekkert hvað gerðist, nema þær segja að hann hafi hellt vatni á sig. Hvað á ég að gera? Mér finnst hann ógeðslegur.

Komdu sæl

Þetta er mjög alvarlegt mál sem þú talar um og ef einhver börn eru í hættu eiga þau að fá að njóta vafans. Umboðsmaður barna vill endilega mæla með því að þú segir foreldrum þínum frá þessu öllu og biðjir þau um að fara í málið. Það sem þarf svo að gera er að:

-         Láta umsjónarkennarann vita.

-         Láta skólastjórann vita.

-         Tilkynna þetta til barnaverndar. Hér er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar um hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra. Einnig er hægt að hringja í Neyðarlínuna í síma 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar. Hann kemur því á framfæri við rétta aðila eða gefur samband áfram. Ef skólastjórnendur hafa einhvern grun um að það sé ekki allt með felldu með þennan mann eiga þeir að hafa samband við barnaverndina. Ef svo er ráðið þið hvort þið tilkynnið líka.

-         Tilkynna þetta til lögreglu.

Þessi orðrómur hefur greinilega verið í gangi lengi í skólanum og ef grunurinn er á rökum reistur er þetta mjög alvarlegt mál sem mikilvægt er að skólinn og barnavernd taki á sem fyrst, í samstarfi við lögregluna ef það á við. Ef þetta er alltsaman einhver misskilningur og það er allt í góðu lagi með þennan mann þá er líka gott að fá það á hreint.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Skóli