English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 17 ára stelpa | Fjölskylda

Vill flytja að heiman - Var misnotuð

Ok hérna ég er með smá vanda og vil fara að heiman. Ég veit að ég er of ung og svona rugl!! En mér finnst ég hafa alveg næga ástæðu!!  Ég get ekki lengur horft framan í mömmu mína og með hverjum degi sem að ég þarf að vera með henni þá fer ég bara að hugsa um það sem hún sagði og gerði ekkert í....

það sem að hún veit er að pabbi systur minnar var að misnota mig og henni er víst alveg sama.. En það er of seint að kæra þetta núna.. en bara ég er búin að gefast upp á að vera hérna er ekki einhver smuga á því að ég geti farið að heima einu ári fyrr??

Komdu sæl 

Það er leitt að heyra um aðstæður þínar og það sem þú hefur þurft að þola en mikið er gott hjá þér að hafa samband og leita þér hjálpar.

Unglingar undir 18 ára aldri geta samkvæmt lögum ekki ákveðið sjálf hvar þau búa. Í barnalögum segir:

“Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.”

Börn eiga þó rétt á að tjá sig um það hvar þau vilja búa ef þau er talin fær um það miðað við aldur og þroska. Þannig skal taka aukið mið af vilja barns eftir því sem það þroskast og hefur sterkari skoðun á málinu. Foreldrarnir, eða þeir sem fara með forsjá barnsins, eiga þó alltaf lokaorðið. 

Aðstæður þínar eru þó þannig að þú hefur alveg ástæðu til þess að hafa samband við barnaverndina þar sem þú býrð. Samskiptin á heimilinu eru líklega ekki mjög heilbrigð og því gæti verið gagnlegt fyrir ykkur mæðgur að hafa samband við fjölskylduþjónustuna í sveitarfélaginu. Ef þú segir félagsráðgjafa eða öðrum starfsmanni fjölskylduþjónustunnar frá misnotkuninni ber þeim skylda til að láta barnaverndina vita. Nánar um barnavernd hér

Þú þarft að fá aðstoð til að leysa úr þeirri sálarflækju sem hlýtur alltaf að fylgja misnotkun. Konurnar hjá Stígamótum búa yfir mikilli reynslu á þessu sviði og þær geta örugglega hjálpað þér í þessari vinnu. Kíktu endilega á heimasíðuna þeirra: www.stigamot.is.

Ef kynferðisbrotin sem þú varðst fyrir voru alvarleg eða stóðu yfir í langan tíma er ólíklegt að þau séu fyrnd. Þú skalt endilega hringja hingað í síma 800 5999 lögfræðing til að ræða málin,  sjá hvað er hægt að gera í stöðunni og hvaða leiðir eru færar innan dómskerfisins. Þú getur líka að sjálfsögðu líka fengið að koma á fund hingað eða skrifa annað bréf það sem þú greinir nánar frá þínum málum.

Við vonumst til að heyra frá þér aftur.

Gangi þér allt í haginn.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda