English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Ég á enga vini í skólanum

Sko, vandamálið er að ÉG Á ENGA VINI í skólanum : ( Ég bara stend alltaf ein og horfi á hina tala um mig og hlægja af mér. Þetta var ekkert svona áður fyrr (ég er búin að vera í þessum skóla frá því í 1 bekk). Það bara kom upp mál sem leið af verkum að þetta gerðist :S.

Mamma vill taka mig úr skólanum en pabbi vill að ég haldi áfram í honum með einhvað plan að baki , og ef einhvað plan virkar ekki þá bara reyna áfram og áfram. Það er eins og það sem ég vilji skipti engu máli (ég vil það sama og mamma). Og ef að ég geri það sem pabbi vill þá eiga kannski öll þessi plön eftir falla og á endanum verð ég bara þunglynd : (  Það eina sem ég vil gera er að flýja. Viltu hjálpa mér ?

Komdu sæl

Það er gott að þú hafir leitað til foreldra þinna með þetta vandamál. En til að leysa þetta mál sem þú segir að hafi komið upp á gæti e.t.v. líka verið gott að fá aðstoð einhvers sem er hlutlaus, t.d. starfsmanns í skólanum. Það er mikilvægt að þú segir umsjónarkennaranum þínum frá því sem er í gangi til að hann/hún geti aðstoðað þig og gefið þér góð ráð. Svo getur þú að sjálfsögðu líka leitað til námsráðgjafans. Umsjónarkennarar og námsráðgjafar eiga að hjálpa nemendum með alls kyns persónuleg mál – ekki bara mál sem tengjast náminu. Foreldrar þínir geta líka haft samband við þessa starfsmenn til að vinna að lausn vandans í sameiningu.

Bréfið þitt ber keim af einelti þar sem þú segir að hinir krakkarnir útiloki þig og hlægi að þér. Ef um einelti er að ræða ætti skólinn að taka á því í samræmi við eineltisáætlun skólans. Ef einhver áætlun er komin í gang í samstarfi við skólann er líklega best að halda sig við hana þangað til fullreynt er að það sé ekki að ganga.

Svo má benda á góða ráðgjöf á netinu, Tótalráðgjöfina. Þar svarar fagfólk alls konar spurningum frá unglingum og ungu fólki. Sjá nánar hér.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Skóli