English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| ára | Skóli

Dónalegur kennari

Hæhæ.  Einn kennarinn í skólanum er mjög dónalegur við alla krakkana , segir t.d. að við séum aumingjar segir okkur að halda kjafti og gefur okkur puttann og kemur með mjög grófa brandara og særir marga... Svo hlægja bara hinir kennararnir :S er þetta einelti ? er þetta ekki rangt??

Komdu sæl

Kennurum ber að koma fram við nemendur sína af virðingu. Það er ekki ásættanlegt að þeir lítillækki nemendur sína eða séu með dónaskap. 

Eftirfarandi tilvitnun er úr Siðareglum kennara:

2. Kennurum ber að virða réttindi nemenda og hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi, efla sjálfsmynd þeirra og sýna sérhverjum einstaklingi virðingu, áhuga og umhyggju.

Nemendur eiga líka að sjálfsögðu að koma fram við kennara og aðra starfsmenn skólans af virðingu. 

Ef þú hefur ekki sagt foreldrum þínum frá framkomu kennarans ættir þú endilega að gera það sem fyrst. 

Ef flestir í bekknum eru sammála þér að þessi kennari gangi of langt í dónaskap ættuð þið að láta skólastjórann vita af því, t.d. með því að fá fund með honum eða safna undirskriftum.

Í flestum skólum er starfandi nemendaráð en þau eru mikilvægur vettvangur nemenda fyrir velferðar- og hagsmunamál þeirra, enda getur samtakamáttur nemenda skipt miklu máli varðandi aðbúnað þeirra í skólanum  Þú, e.t.v. í samstarfi við aðra nemendur, gætir lagt málið fyrir nemendaráðið í skólanum þínum. 

Einnig má benda þér á að leita til námsráðgjafans í skólanum, sem gæti aðstoðað ykkur í þessu máli. Hann er líka í aðstöðu til að meta hvort um einelti sé að ræða eða ekki.

Kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Skóli