English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Fjölskylda

Vil ekki búa með stjúppabba mínum

Sko einu sinni þá tók fósturpabbi minn mig upp á bolnum sleit hálsmenið sem að ég var með um hálsinn og sló mig utanundir. Mamma mín horfði á og gerði ekki neitt.

OG svo eru þau búin að banna mér að hitta langlanglang bestu vinkonu mína .. .[erindi stytt af umboðsmanni barna] ... Ég vil bara ekki lifa lengur nema fyrir vinkonur mínar.  Ein þeirra er búin að styðja mig í gegnum allt ílífinu síðan við kynntumst en samt sem áður vil ég ekki búa heima hjá mér á meðan að fósturpabbi minnn býr þar!!!

Komdu sæl 

Samkvæmt upplýsingum í bréfinu þínu þarf fósturpabbi þinn (þú ert þó líklega að meina stjúppabbi þinn) greinilega á einhvers konar aðstoð eða leiðsögn í uppeldismálum að halda. Barnaverndin aðstoðar fjölskyldur barna sem þola ofbeldi heima hjá sér eða búa við óviðunandi uppeldisaðstæður. Einfaldast er að hringja í síma 112 og bera erindið upp við starfsmann Neyðarlínunnar. Hann kemur málinu svo áfram til barnaverndarinnar þar sem þú býrð í samræmi við alvöru málsins. 

Það væri þó örugglega best ef þú gætir sest niður í rólegheitum með mömmu þinni og sagt henni hvernig þér líður. Það er alls ekki öruggt að hún geri sér grein fyrir því sem hrjáir þig og með því að ræða málin má oft finna lausn á vandamálum.  Ef þér finnst erfitt að tala við hana ein ættir þú að biðja einhvern sem þú treystir (t.d. einhvern úr fjölskyldunni) að vera viðstaddan þegar þið ræðið saman. Þú átt líka alltaf að geta leitað til mámsráðgjafans í skólanum eða umsjónarkennarans þíns með ýmis konar persónuleg mál sem þig vantar ráðgjöf í. 

Svo má líka benda þér á Tótalráðgjöfina, www.totalradgjof.is.  Þar er hægt að fá ráðgjöf fagfólks í alls konar málum.

Hér er slóð að mjög fróðlega heimasíðu þar sem fjallað er um stjúpfjölskyldur: www.stjuptengsl.is Endilega kíktu á barnasíðuna, þar kemur ýmislegt fróðlegt fram, m.a. eru þar upplýsingar um það hvernig best sé að bera sig að ef manni líkar ekki við stjúpforeldri sitt. 

Ef þér líður mjög illa getur þú líka hringt í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum.   

Ef þú hefur enn spurningar um þessi mál eftir að hafa lesið svarið þá er þér velkomið að hringja og ræða við einhvern starfsmann umboðsmanns barna. Síminn er 800 5999 og er opinn milli kl. 9 og 15. 

Gangi þér vel.

Kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda