English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 11 ára stelpa | Skóli

Styttri skóla og lægri skólagjöld !

Er ekki hægt að hafa skólann styttri og lægri skólagjöld og vera aðeins betri við börn yngri en 8 ára sem eru í gæslu i skóla og ekki beita ofbeldi :S  Endilega sendið mér svar við þessum spurningum :)

Komdu sæl

Grunnskólalögin kveða á um fjölda kennsludaga á ári sem og fjölda kennslustunda.  Þessu er ekki hægt að breyta nema með lagabreytingu á Alþingi.  Skólagjöld eru ekki innheimt í almennum grunnskólum. Ekki má krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni er nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Það má heldur ekki láta nemendur borga fyrir ferðalög sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Skólaakstur skal líka vera nemendum að kostnaðarlausu.

Sem betur fer eru almennu grunnskólarnir yfirleitt mjög góðir og því er meirihluti barna í þeim. Stundum velja börn og foreldrar þeirra þó heldur einkaskóla. Þó að einkaskólar fái einhverja fjármuni frá sveitarfélögunum þá er skólahaldið í þeim einnig fjármagnað með skólagjöldum.

Það er mjög alvarlegt mál ef börn eru beitt ofbeldi í skólanum. Ef svo er þá er mikilvægt að skólastjórnendur séu látnir vita til að hægt sé að taka á málinu. Best er að byrja á því að ræða málin við umsjónarkennarann sinn. Ef börnum líður illa í heilsdagsskólanum (frístundaheimilinu eða skólaselinu) er nauðsynlegt að yfirmenn heilsdagsskólans viti af því.

Fyrsta skrefið fyrir börn sem líður ekki vel í skólanum er samt alltaf að segja foreldrum sínum frá því. Þeir eiga svo að hjálpa barninu og tala við þá sem þarf að tala við.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Skóli