English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Fjölskylda

Á afmæli seint á árinu. Hvað með útivistarstíma?

Mamma þarf alltaf að láta eins og ég sé einu ári yngri en ég er af því að ég á afmæli soldið seint á árinu !  Ég er búin að reyna að segja henni að ég líti á mig ekki einu ári yngri en hún segir alltaf að ég sé ennþá 12 ára.  Hún leyfir mér t.d. ekki að vera til kl.10 á kvöldin frá 1.september-1.maí, bara til kl.8 !  Hvað á ég að gera ?

Komdu sæl

Reglur um útivistartíma er að finna í barnaverndarlögum. Lagagreinin lítur svona út:

92. gr. Útivistartími barna.

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. 

Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag

Sömu opinberu reglur gilda því um öll börn í sama árgangi. Ýmsar ástæður eru fyrir því að takmarka útivist barna og unglinga á kvöldin.  Helstar eru:

  • Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skólanum.  Það að vera komin heim á skikkanlegum tíma og eiga smástund heima fyrir háttinn hjálpar vaxandi fólki að fara fyrr að sofa.
  • Þreytt og illa sofið fólk er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum, sérstaklega þegar skyggja tekur.
  • Börn og unglingar sem eru úti langt fram á kvöldin eru líklegri til að fara fyrr að fikta við tóbak, áfengi og fíkniefni.
  • Alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla eiga sér oftast stað seint á kvöldin.

Reglur um útivistartíma segja til um hvað börn mega vera lengi úti en ekki hvað þau eiga að vera lengi úti.  Foreldrar geta að sjálfsögðu sett sínar eigin reglur innan ramma útivistarreglna. 

Unglingum ber að sjálfsögðu alltaf að fara eftir þeim reglum sem foreldrar þeirra eða forsjáraðilar setja þeim. Margir foreldrar setja börnum sínum strangari reglur en er að finna í barnaverndarlögum og hafa þeir ýmsar ástæður fyrir því, s.s. heimanám og samvera með fjölskyldunni.

Foreldrar (eða þeir sem fara með forsjá barnanna) eiga samkvæmt 28. grein barnalaga að ráða persónulegum högum barna sinna og eiga þeir í flestum tilfellum lokaorðið í ákvörðunum sem teknar eru um hagi barnanna. Mikilvægt er þó að foreldrarnir hlusti á unglingana og taki réttmætt tillit til skoðana þeirra en það breytir því ekki að foreldrarnir bera ábyrgð á velferð unglingsins og þeir eiga alltaf lokaorðið. Best er auðvitað þegar unglingar og foreldrar koma sér sameiginlega upp reglum sem allir eru sáttir við.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 
 
 
 
 
 

 

Flokkur: Fjölskylda