English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 17 ára stelpa | Kynlíf og sambönd

Langar að eignast barn

Ef mér langar að eignast barn en foreldrar mínir ekki... hvaða ákvörðun á ég að taka?  Kærastinn minn og ég erum bæði sátt við það.... enda gerum við það aldrei með getnaðarvörnum:S

ATH.  Tölvupóstfang sendanda er óvirkt!

Komdu sæl

Umboðsmanni barna finnst þú helst til ung til að vera að skipuleggja barneignir. Þú ættir að hlusta á foreldra þína. Þau bera ábyrgð á þér til 18 ára aldurs og eiga að ráða persónulegum högum þínum. Þau eiga að sjálfsögðu að taka réttmætt tillit til skoðana þinna í samræmi við aldur þinn og þroska – en þau eiga samt alltaf lokaorðið þangað til þú verður lögráða 18 ára. Gagnvart heilbrigðisþjónustunni öðlast maður hins vegar rétt sem sjálfstæður einstaklingur við 16 ára aldur.

Það er ekkert sem segir að ungir foreldrar séu neitt verri en þeir eldri.  Æskan er hins vegar sérstakur tími og unglingar ættu helst að fá að njóta þess að læra og þroskast án þess að þurfa að sinna þeim skyldum sem foreldrahlutverkið hefur í för með sér. Foreldrahlutverkið er eitt mikilvægasta verkefnið okkar og fólk ætti að sinna því heilshugar - án þess að hafa það á tilfinningunni að það sé að missa af einhverju með félögunum. Því fylgir mikil ábyrgð, vinna og oft andvökunætur að eiga barn. Þú berð ekki lengur eingöngu ábyrgð á þínum eigin lífi og gjörðum heldur berð þú ábyrgð á lífi og heilsu lítils einstaklings um ókomna tíð.  Þarfir barnsins þurfa alltaf að hafa forgang. Þá fylgja barni heilmikil fjárútlát.

Það er því gott að gera hlutina í sátt og samlyndi við foreldra sína og þess vegna væri e.t.v. gott að þið rædduð þessi mál aðeins, t.d. hvernig þú sérð framtíðina fyrir þér.  Ætlar þú þér að læra meira?  Það er full vinna að vera í framhaldsskóla og að taka þátt í félagslífinu sem fylgir. Ef þú ert hætt í skóla er gott að huga að því hvernig þú ætlar að sjá fyrir barninu í framtíðinni. Heldur þú að kærastinn þinn taki jafn mikla ábyrgð á barninu og þú? Treystir þú þér að vinna með honum í sátt og samlyndi að málefnum tengdum barninu þó að þið hættið einhvern tíma saman?

Það væri líka örugglega gott fyrir þig að ræða þetta mál við einhvern annan sem þú treystir, t.d. ráðgjafa hjá Tótalráðgjöfinni, sjá www.totalradgjof.is.  

Á vefnum ljósmóðir.is er að finna ýmsar upplýsingar er varða meðgöngu og barneignir, m.a. spurt og svarað og sérstaka umfjöllun um ungar mæður.

Þú ert ung og hefur framtíðina fyrir þér. Umboðsmaður barna mælir því með að þú hugsir núna um að mennta þig og njóta lífsins með fjölskyldunni, vinum, vinkonum og kærastanum. Það er nægur tími seinna til að hugsa um barneignir þegar þú ert betur undir það búin.

Í lokin: hér er hlekkur á bækling Landlæknis: Leiðbeiningar um getnaðarvarnir.  Þú skalt endilega kynna þér hvað er í boði.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna