English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára strákur | Ýmislegt

Vinnutími á hóteli um helgar

Ég vinn í uppvaki á hóteli í miðbæ 101 og vinn á helgum frá 16 á daginn til 04-05 á nóttunum, má það?  Ég fæ 1050 á tíman!  Hvað mega 16 ára uglingar vinna mikið?  Ég er í skóla.

Komdu sæll

Um vinnu barna og unglinga er fjallað um í X. Kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum  og í reglugerð um vinnu barna og unglinga

Samkvæmt reglugerðinni er unglingur skilgreindur sem einstaklingur 15-17 ára sem ekki er í skyldunámi. Rétt er að taka hér fram að foreldrar hafa eftirlitsskyldu með börnum sínum þegar þau fara út á vinnumarkaðinn.

Vinna unglinga er almennt leyfð nema við hættuleg tæki, efni og verkefni og störf sem teljast líkamlega mjög erfið. Samkvæmt reglunum mega unglingar 15-17 ára vinna 8 klst á dag (40 klst á viku).  Hvíld skal vera a.m.k. 12 klst á sólarhring. Þegar um er að ræða vinnu unglinga við hótel- og veitingarekstur og vinnu sem skipt er upp yfir daginn, er heimilt að víkja frá þessu ákvæði þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíld. Samfelld hvíld skal þó aldrei fara niður fyrir 10 klst. á sólarhring.

Í 19. grein reglugerðarinnar segir svo:

Kvöld- og næturvinna
Unglingar mega ekki vinna frá kl. 22 til kl. 6 nema annað sé sérstaklega tekið fram, þó aldrei milli kl. 24 og kl. 4.

Á veitingastöðum, hótelum og við svipaða starfsemi mega unglingar vinna til kl. 24.

Það er því auðséð að vinnan þín er ekki í samræmi við þessar reglur. Eðlilegra væri að þú ynnir frá kl. 16-24, sem þó hlýtur að teljast frekar mikið miðað við að þú ert líka í skóla.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með því að ákvæði ofangreindra laga og reglugerðar séu virt. Því væri réttast fyrir þig að benda starfsfólki Vinnueftirlitsins á aðstæður þínar. Heimasíðan er www.vinnueftirlit.is og símanúmerið er 550 4600.

Þar sem þú er orðinn 16 ára og vinnur á hóteli þá ert þú líklega í stéttarfélaginu Eflingu. Þú getur að sjálfsögðu haft samband þangað til að fá ráðleggingar og upplýsingar um réttindi þín og skyldur á vinnumarkaði.  Heimasíðan er www.efling.is. Ef hins vegar vinnan er “svört”, þá er ekki mikið sem stéttarfélagið getur gert í þessu þó að stéttarfélög leiðbeini þér að sjálfsögðu um rétt þinn. Því fyrr sem þú hefur samband við stéttarfélag því betra.

Ef þú vinnur sem verktaki þá nýtur þú ekki sömu kjara og almennir launþegar, s.s. orlofs, veikindarétts, sjúkrasjóðs o.s.frv.  Það er því að mörgu að huga í þessum efnum. 

Þú skalt endliega ræða þetta við foreldra þína, Vinnueftirlitið og Eflingu.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt