English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Heilsa og líðan

Vil fá hjálp við þunglyndi án þess að foreldrar mínir viti það

Ég er rosalega þunglynd, og ég er alltaf að reyna að fremja sjálfsmorð, ég var að spá, hvort að hægt væri að hringja í BUGL og fá viðtal þar, án þess að mamma og pabbi manns vissu af því?

Komdu sæl

Það er leitt að heyra að þér líði svona illa.  

Göngudeild BUGL veitir börnum og unglingum 17 ára og yngri þjónustu við geðheilbrigðisvanda. Alltaf er unnið með allri fjölskyldunni.  Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki BUGL (s. 543 4300) getur þú rætt við Dagbjörtu barnageðlækni á símatíma hennar sem er á mánudögum kl. 9-9:30 og fimmtudögum kl. 11-11:30. Þá þarft þú að hringja í aðalnúmer Landspítalans, 543 1000 og biðja um samband við hana.

Yfirleitt finnst fólki gott að ræða um hlutina við einhvern sem maður treystir og maður þekkir vel eins og t.d. einhvern úr fjölskyldunni.  Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni og þess vegna væri eðililegast að þú myndir byrja á að ræða líðan þína við þau.  Ef þér finnst þú ekki geta rætt við þau beint  eru líka aðrar leiðir í boði fyrir þig.

Á heimasíðu Geðhjálpar, www.gedhjalp.is, er m.a. að finna upplýsingar um geðraskanir eins og t.d. geðhvörf, þunglyndi, kvíða, geðklofa, persónuleikaröskun, áráttu- og þráhyggjuröskun og átröskun.  Hjá Geðhjálp starfar sálfræðingur sem hægt er að ræða við í trúnaði.  Síminn er 570 1700.

Námsráðgjafinn í skólanum, umsjónarkennarinn þinn eða skólahjúkrunarfræðingurinn eru þeir aðilar í þínu nánasta umhverfi sem gætu aðstoðað þig. Þeir eru bundnir trúnaði og geta hjálpað þér að leysa úr persónulegum erfiðleikum. Þeim, eins og öllum öðrum, ber þó alltaf skylda til að tilkynna barnavernd ef heimilisaðstæður þínar eru óviðunandi.

Á heimasíðunni www.totalradgjof.is er m.a. að finna undirsíðu um sálfræðileg vandamál  þar sem fjallað er um stór og smá vandamál eins og þunglyndi, feimni, skapsveiflur, vinaleysi og kvíða. Þar getur þú  leitað svara sérfræðinga við spurningum þínum

Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu. Þegar þér líður illa skaltu ekki hika við að hringja í 1717.

Þú átt rétt á að fá aðstoð.  Ekki gefast upp. Hafðu endilega samband aftur ef þú vilt.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna