English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Fjölskylda

Mér finnst ég passa ekki inní fjölskylduna mína

Mamma mín og pabbi eru alveg frábærir foreldrar, svolítið ströng en góð. Ég á erfitt með að vakna á morgnana og nota ljót orð og er ekki fyrirmyndarbarn, en bróðir minn er draumur pabba. Hann er með mynd af bróður mínum á símanum sínum en ekki mér. Mér finnst ég passa ekki inní fjölskylduna en allavega vil ég vita hvernig ég get verið draumabarn pabba míns, því ég vil það svo sárt.

Komdu sæl

Það er leitt að heyra að þér finnist þú ekki passa inn í fjölskylduna. Það sem er yfirleitt best að gera í svona stöðu er að fá mömmu þína og pabba til að setjast niður með þér og ræða málin. Pabba þínum þykir örugglega jafn vænt um þig og bróður þinn og líklega hefur hann ekki hugsað út í það að þér sárni það að hanni hafi ekki mynd af þér í símanum.  Það er ekkert víst að foreldrar þínir geri sér grein fyrir því hvernig þér líður og því er mikilvægt að þú segir þeim hverju þú er leið yfir og hverju þú vilt helst breyta. 

Þú ert að komast á unglingsárin og sá tími getur stundum verið ruglingslegur. Skapið getur sveiflast upp og niður og suma daga virðist veröldin alveg glötuð.  Þó að þú meinir kannski ekkert með ljótu orðunum sem þú notar geta þau samt sært foreldra þína og gert þau áhyggjufull.  Ef þú vilt að þau komi fram við þig af virðingu og hlýju þarftu sjálf að leggja þitt af mörkum til að samskiptin séu góð.  Það er líka mikilvægt að láta þau vita hvernig þér líður. Þannig skilja þau þig betur og eiga auðveldara með að hjálpa þér. 

Þú segist eiga erfitt með að vakna á morgnanna.  Hæfileg svefnþörf 9-12 ára barna er um 10 – 11 klst. á sólarhring en 13-15 ára börn þurfa að sofa um 9 – 10 klst. á sólarhring, helst samfellt. Hreyfing og slökun gera manni auðveldara með að sofna á kvöldin en hreyfingarleysi og of mikil sjónvarps- og tölvunotknun getur haft neikvæð áhrif á svefn. Ef þú ert mjög syfjuð á daginn getur 20 mínútna lúr að degi til dregið úr mestu þreytunni.  Annars er best að ræða þetta við hjúkrunarfræðing, t.d. í skólanum þínum.

Svo er líka vert að benda á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.  Þú getur hringt í 1717 hvenær sem er ef þér líður illa og þér finnst eins og enginn skilji þig.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda