English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Fjölskylda

17 ára að verða móðir - hvaða réttindi hef ég?

Hæ, Eg er verd 17 ára nú i sumar. Ég er ólett og vildi vita hvaða réttindi ég kem til með ad hafa sem móðir undir 18 ára. Ég á ekki ad eiga fyrr en um jólin en ég vil vera med föður barnsins. Hann er 19. Er einhver möguleiki a því og hvaða réttindi hef eg gagnvart barninu minu? Mamma min má t.d ekki taka barnið frá mér eða hvað? kv. radvilt

Komdu sæl

Samkvæmt lögræðislögum verða einstaklingar lögráða (þ.e. sjálfráða og fjárráða) 18 ára. 

Það að vera sjálfráða þýðir að þú mátt ráða persónulegum högum þínum, t.d. hvar þú býrð, vinnur eða stundar nám. Það að vera fjárráða þýðir að þú mátt ráðstafa fjármunum þínum sjálf, þú getur stofnað til skulda og mátt ráða notkun og meðferð eigna þinna.

Fram að 18 ára aldri fara foreldar barns eða þeir sem koma barni í foreldra stað með lögráð. Þessi lögráð nefnast forsjá og fer um hana eftir ákvæðum barnalaga og barnaverndarlaga. Með forsjá barns er átt við rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins auk þess að gegna öðrum foreldraskyldum. Í því felst m.a. að foreldrar ráða hvar barnið býr, þau annast daglegar þarfir barnsins,t.d. hverju það klæðist frá degi til dags, mataræði, útivistartíma o.s.frv.

Eftir því sem börn eldast og þroskast eiga þau að fá að ráða meiru um persónuleg mál sjálf. Það er hæpið fyrir foreldra að banna 17 ára barni sínu að eiga 19 ára kærasta nema foreldrarnir hafi áhyggjur af því að kærastinn sé ekki góður eða hafi slæm áhrif á barnið.

Með lögráðum er ekki eingöngu átt við  forsjárskyldur heldur fara foreldrar einnig með fjárhald barna sinna til 18 ára aldurs samkvæmt ákvæðum lögræðislaga, þ.e. eru lögbornir lögráðamenn.

Ekki er að finna í lögunum skýrt lagaákvæði sem kveður á um það hvernig með skuli fara þegar ólögráða einstaklingur eignast barn. Í V. kafla barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um foreldraskyldur og forsjá barns. Ef móðir er ekki í sambúð eða gift föður barnsins við fæðingu þess fer hún ein með forsjá barns. Í 28. gr. laganna er síðan fjallað um inntak forsjár.

Telja verður samkvæmt þessu að forsjá barns geti verið í höndum ólögráða foreldra, þ.e. þau geti sjálf ráðið persónulegum högum barns síns. Hins vegar verður að telja að þau geti ekki orðið lögráðamenn (fjárhaldsmenn) barns síns fyrr en þau verða sjálf fjárráða.

Í samræmi við þetta hafa foreldrar þínir enn ákveðnum forsjár- og framfærsluskyldum að gegna gagnvart þér þar til þú verður 18 ára. Hins vegar getur móðir þín ekki tekið af þér barnið á þeim forsendum að hún fari enn með lögformlegt fyrirsvar yfir þér.

Ýmis réttindi og skyldur fylgja því að eignast barn. Móður er t.a.m. skylt að feðra barn sitt og skylt er að gefa barni nafn innan 6 mánuða. Þá bera foreldrar ákveðnar forsjárskyldur sbr. hér að ofan og þeim ber að framfæra barn sitt til 18 ára aldurs. Alist barn upp hjá öðru foreldrinu getur það foreldri krafist meðlags úr hendi hins til þess að standa straum af útgjöldum vegna framfærslunnar.

Hér á aðalsíðu umboðsmanns barna finnur þú  upplýsingar um forsjá, umgengni, meðlag o.fl. Það er gott að vera búin að kynna sér þessi praktísku mál áður en barnið fæðist. 

Allar heilsugæslustöðvar á landinu sinna almennri mæðravernd. Þá sinna hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum einnig ung- og smábarnavernd fyrir börn á aldrinum 0-5 ára . Þessi þjónusta er ókeypis.  Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  Hjá Fæðingarorlofssjóði er hægt að fá upplýsingar um skilyrði greiðslu og lengd  fæðingarorlofs og/eða fæðingarstyrks. Á vef ríkisskattstjóra  er hægt að fá upplýsingar um barnabætur.

Því fylgir mikil ábyrgð og vinna að eignast barn. Þú berð ekki lengur eingöngu ábyrgð á þínum eigin lífi og gjörðum heldur berð þú ábyrgð á lífi og heilsu lítils einstaklings um ókomna tíð. Þarfir barnsins þurfa alltaf að hafa forgang. Þá fylgja barni heilmikil fjárútlát. Það er því gott að gera hlutina í sátt og samlyndi við foreldra sína og hafa góðan bakhjarl sem hægt er að leita til, til þess að fá ráðleggingar, stuðning og hjálp.

Þér er velkomið að hringja hingað á skrifstofuna s: 552 8999 til þess að fá nánari upplýsingar eða skýringar.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda