English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stlepa | Fjölskylda

Mega foreldrar reka barn að heiman?

Geta foreldrar hent barni sínu út án staðs til að vera á þegar barnið er 16 ára gamalt ef engin eiturlyf eða annað amar að barninu. Einungis vegna þess að það hlýðir ekki þegar þau biðja það um að taka til í herberginu sínu. Við erum ekki að tala um að barnið misnoti útivistartímann sinn eða annað þess háttar.

Komdu sæl

Svarið við spurningu þinni er einfalt: Nei. Í forsjár- og uppeldisskyldu foreldra felst að þeir eiga m.a. að sjá barni sínu fyrir fæði, klæði og heimili.  Með því að reka barn að heiman án þess að vera búin að tryggja barninu annað úrræði eru foreldrar því að bregðast forsjárskyldu sinni.  Það er því í rauninni barnaverndarmál ef þeir gera svo. Barn í þessari stöðu getur leitað til barnaverndarnefndar þar sem það býr og látið vita af aðstæðum sínum.  Aðrir sem vita af ástandinu ættu að gera hið sama.

Ef þú vilt kynna þér frekar skyldur foreldra skaltu endilega skoða 28. grein barnalaga nr. 76/2003 en þar er fjallað um foreldraskyldur og forsjá barns.

Þess má geta að börn bera líka skyldur. Þau eiga t.d. að sýna foreldrum sínum virðingu og fara eftir reglum heimilisins.

Í þessu dæmi sem þú talar um eru greinilega einhverjir samskiptaörðugleikar á heimilinu.  Þetta mál ætti nú samt að vera hægt að leysa í góðu, t.d. með því að setjast niður með foreldrunum og ræða málin opinskátt. Foreldrar eru ekkert endilega snillingar í samskiptum og stundum geta áhyggjur þeirra brotist út sem reiði og ásakanir. Eins geta sveiflur unglingsáranna haft áhrif á framkomu unglinganna við foreldra sína. Stundum láta unglingar reiði sína og vonbrigði bitna á foreldrum sínum og  kenna þeim jafnvel um það sem miður fer. Það er alveg skiljanlegt þegar þeir vita að það hefur engin áhrif á þá umhyggju sem foreldrarnir bera til þeirra.

Ef ekki tekst að leysa þetta mál innan fjölskyldunnar má alltaf leita ráða hjá fagfólki, t.d. í fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins.

Barni sem líður ekki vel heima hjá sér og finnst enginn geta eða vilja hlusta á sig getur líka alltaf leitað til eftirtalinna aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og stuðning:

  • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns.  Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum.  Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans eins og t.d. hjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins, námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málin við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum.
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál – enda eru prestar bundnir trúnaði.  Jafnvel þótt þú þekkir prestinn “þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins.  Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.
  • Tótalráðgjöfi býður upp á heildræna ráðgjöf fyrir unglinga.  Heimasíðan er www.totalradgjof.is.  

Kær kveðja frá umboðsmanni barna   

Flokkur: Fjölskylda