English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Fjölskylda

Mamma og stjúpi að skilja - má ekki tala um það

hæhæ sko ég er að fara að flytja fljótlega og mamma og stjúpi minn að skilja,

Ok mér líður ekki illa útaf þvi en eina er að ég verð að tala um þetta ég held að mamma vilji ekki tala um þetta og ég má ekki seigja vinum mínum þetta ég á ofboðslega erfitt með að byrgja þetta ein.kv:xxx 

Komdu sæl

Skilnaðir og sambúðarslit eru alltaf erfiðir – hjá því verður ekki komist.  Þú hefur fullan rétt á að tjá þig um þau mál sem snerta þig og hafa áhrif á líðan þína. Ef mamma þín vill ekki að þú talir um þetta við vini þína vill umboðsmaður benda þér á að það er annað mál að tala um þetta við einhvern fullorðinn sem þú þekkir og treystir, t.d. afa eða ömmu eða einhvern annan í fjölskyldunni. Svo eru líka nokkrir aðrir aðilar sem þú getur talað við í trúnaði og fengið upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.

  • Í fyrsta lagi getur þú leitað til umsjónarkennarans þíns.  Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum.  Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans eins og t.d. hjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann.  Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins, námsráðgjafans.  Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málin við það.   
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál – enda eru prestar bundnir trúnaði.  Jafnvel þótt þú þekkir prestinn “þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. 
  • Tótalráðgjöfi býður upp á heildræna ráðgjöf fyrir unglinga. Það er hægt að skrifa tölvupóst, koma eða hringja. Heimasíðan er www.totalradgjof.is.   

 Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda