English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára strákur | Ýmislegt

Barnaþrælkun?

Sko pabbi vill að ég fari að vinna í sumar en ég vill það ekki en hann ætlar að láta mig gera það. Er það ekki vinnuþrælkun eða barnaþrælkun eða eitthvað?   Svara sem fyrst.

Komdu sæll

Þú spyrð hvort það að þú farir að vinna í sumar gegn vilja þínum geti talist barnaþrælkun.

Svar umboðsmanns við þessu er nei – þ.e.a.s. ef starfið sem stendur til að þú sinnir er við hæfi.

Vinna unglinga getur verið uppbyggjandi og góður undirbúningur fyrir lífið en hins vegar geta of erfið og ábyrgðarmikil störf valdið skaða.  Því er mikilvægt að þau störf sem unglingar fást við henti aldri þeirra, þroska og líkamlegri getu. 

Til er reglugerð um vinnu barna og unglinga.  Hér á vef Vinnueftirlitsins er hægt að skoða veggspjald með aðalatriðum reglugerðarinnar. Unglingar mega t.d. ekki vinna við hættuleg tæki og verkefni eða meðhöndla hættuleg efni.  Svo eru líka takmörk fyrir því hvað þeir mega lyfta eða bera þungar byrðar.  Samkvæmt þessum reglum mega börn 13-14 ára vinna í 7 klst. á dag utan starfstíma skóla (35 klst. á viku).  Þau mega samt ekki vinna milli kl. 20 á kvöldin og 6 á morgnana og þau verða að fá a.m.k. 14 klst. hvíld á sólarhring og 2 daga í viku. 

Foreldrum þínum ber að haga þínum málum á þann veg sem er þér fyrir bestu. Þeim ber að sjálfsögðu að taka réttmætt tillit til skoðanna þinna en þau eiga samt lokaorðið.  Pabbi þinn telur sig líklega vita að hæfileg vinna geri þér gott.Það að hafa nægilega mikið fyrir stafni í skólafríum er talið gott og þroskandi fyrir unglinga og ekki spillir að fá greitt fyrir vinnuna.  Peningurinn sem þú vinnur þér inn sjálfur getur þú sjálfur ráðstafað að vild (nema það séu mjög háar upphæðir).

Þó að vinna sé af hinu góða er þó mikilvægt að hafa í huga að börn eiga líka rétt á frítíma og hvíld.  Allt er gott í hófi.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt