English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Ýmislegt

Útivistartími - áfengiskaupaaldur - fósturmál

Hvað mega krakkar sem eru 16 ára vera lengi úti?  

Því má 18 ára krakki ekki kaupa áfengi né drekka það því þau eru orðin sjálfráða? 

Þegar manneskjan er orðin 16 ára og býr á fósturheimili eiga þau þá ekki rétt að fá að fara heim ef þau vilja þegar foreldra þeirra sé ekki á landi en systkinin þeirra sé heima?

Komdu sæl

Þú berð upp þrjár spurningar.  Hér verður þeim svarað hverri fyrir sig.

Um útivistartíma 16 ára og eldri
Það gilda ekki neinar opinberar reglur um útivistartíma unglinga sem orðnir eru 16 ára gamlir. Unglingum ber þó að sjálfsögðu ennþá að fara eftir þeim reglum sem foreldrar þeirra eða forsjáraðilar setja þeim.  Mikilvægt er að foreldrarnir hlusti á unglingana og taki réttmætt tillit til skoðana þeirra en það breytir því ekki að foreldrarnir bera ábyrgð á velferð unglingsins og þeir eiga alltaf lokaorðið. Best er auðvitað þegar unglingar og foreldrar koma sér sameiginlega upp reglum sem allir eru sáttir við.

Um áfengiskaupaaldur
Samkvæmt áfengislögum (18. grein) er óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára.

Til upplýsinga má geta þess að árið 1969 var aldurslágmarkið til neyslu áfengis fært úr 21 ári niður í 20 ár. Var sú breyting í samræmi við breytta löggjöf um kosningarétt, kjörgengi, lögræðisaldur og hjúskaparaldur.  Nú verða ungmenni lögráða 18 ára og geta þá gengið í hjúskap, kosið í almennum kosningum og eru kjörgeng á Alþingi.  Áfengislögunum hefur þó ekki verið breytt til samræmis við þetta.  Helstu rökin fyrir því að halda 20 ára markinu eru verndarsjónarmið, þ.e. talið er að með því sé verið að stuðla að hóflegri neyslu áfengis og vinna gegn misnotkun þess sem er stórt vandamál hér á landi og víðar. Neysla áfengis er sérstaklega skaðleg börnum og unglingum og getur haft skaðleg áhrif, t.d. á þroska og menntun. Lögin eru sett á Alþingi og aðeins alþingismenn, sem eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, geta breytt þeim.  Sjá nánar á www.althingi.is.

Um heimsókn unglinga á fósturheimili til systkina sinna
Þegar barn býr við slæmar aðstæður þarf barnaverndarnefnd stundum að fela öðru fólki (fósturforeldrum) forsjá eða umsjá barns.  Ástæður fósturs geta verið margar en algengast er að börnum sé komið fyrir í fóstur vegna félagslegra, sálrænna eða geðrænna erfiðleika foreldra, vímuefnaneyslu þeirra, veikinda eða vanrækslu. Oft er fóstrið tímabundið en stundum til lengri tíma. Á vef Barnaverndarstofu eru skilgreiningar á tegundum fósturs. Fóstur barns er sérstakt úrræði sem er oftast ákveðið í samráði við foreldra og á ekki standa lengur en þörf krefur. Fóstur barns getur þó varað þar til barnið verður lögráða ef það er talið barninu fyrir bestu.  Barn sem á að koma fyrir hjá fósturfjölskydu á rétt á upplýsingum um gang mála og skýringum á aðstæðum og orsökum, svo framarlega sem það er ekki andstætt hag þess.

Oftast halda börnin áfram að hitta og/eða tala við kynforeldra sína og systkini eftir að þau eru komin til fósturfjölskyldunnar, nema það sé andstætt hag þeirra. Barnaverndarstofa, barnaverndarnefnd og fósturforeldrarnir meta það hvort og þá hvenær og hve oft er best að barnið eða unglingurinn hitti kynfjölskyldu sína.  Það á alltaf að hugsa fyrst og fremst um hvað sé barninu fyrir bestu.  Ef þú vilt fá að hitta systkini þín á meðan foreldrar þínir eru í útlöndum skaltu endilega spyrja hvort það sé hægt.  Barnaverndaryfirvöldum ber að taka réttmætt tillit til vilja þíns en forsjáraðilinn (foreldrar, fósturforeldrar eða sá aðili sem barnaverndarnefnd hefur falið að fara með forsjá þína) og barnaverndarnefndin eiga alltaf lokaorðið.

Til að fá upplýsingar um þitt mál og möguleika þína til að hafa meira samband við systkini þín skaltu endilega hafa samband við Hildi sem vinnur á Barnaverndarstofu.  Netfangið er hildur@bvs.is og símanúmerið er 530 2600.

 Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga fyrir börn og unglinga hjá fósturfjölskyldu.

  • Aðskilnaður við kynforeldra veldur því að mörg börn finna fyrir missi og sorg þrátt fyrir að hafa þurft að upplifa mjög erfiða hluti á heimilinu áður en þeim er komið fyrir hjá fósturfjölskyldu. 
  • Það er algengt að systkini gangi öðrum systkinum sínum í foreldrastað í fjölskyldum þar sem mikið bjátar á þannig að aðskilnaður við systkini getur reynst sumum börnum alveg jafn erfiður og aðskilnaður við kynforeldra.  Ef það er hægt er þó yfirleitt reynt að skilja ekki systkini að, heldur búa þeim nýtt fósturheimili saman.
  • Flestum börnum líkar illa við miklar breytingar og það er margt sem þarf að venjast í fósturfjölskyldum; nýjar venjur, siðir og reglur.  Eftir því sem börnin eldast getur þeim reynst erfiðara að aðlagast nýju umhverfi.
  • Það er nauðsynlegt að ALLIR leggi sig fram um að láta þetta ganga vel.
  • Það er mikilvægt að börnin tjái sig um líðan sína hjá nýju fjölskyldunni.  Gott er að byrja á því að biðja fósturmömmu eða fósturpabba um tíma til að ræða málin, helst á rólegum stað þar sem engin truflun er. Sum börn eru að burðast með mjög erfiða lífsreynslu úr frumbernsku. Þau þurfa e.t.v. á sérfræðiaðstoð að halda til að vinna úr henni.
  • Fósturfjölskyldan þarf líka tíma til að kynnast og venjast fósturbarninu.  Hún er örugglega öll af vilja gerð til að láta fóstrið ganga vel og þess vegna er nauðsynlegt fyrir alla að sýna tillitssemi og kurteisi í samskiptum.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt