English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára strákur | Skóli

Ofbeldi af hálfu starfsmanna skóla

Hvaða rétt eiga börn þegar kennari eða annar starfsmaður skóla beitir þau ofbeldi?

Komdu sæll 

Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Ef þú veist um dæmi þess að kennari eða starfsmaður skóla beiti barn eða börn ofbeldi skaltu endilega láta foreldra þína vita af því sem fyrst. Einnig er mikilvægt að koma þessum upplýsingum til einhvers starfsmanns skólans sem þú treystir.

Börn eiga rétt á að líða vel í skólanum sínum og að njóta verndar gegn ofbeldi, hvort sem það er andlegt eða líkamlegt.

Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er að finna ákvæði varðandi líkamsárásabrot og önnur ofbeldisbrot. Þessi ákvæði taka jafnt til allra fórnarlamba ofbeldisbrota, hvort sem fórnarlamb ofbeldisins er barn eða fullorðinn einstaklingur. Allir eiga þennan almenna rétt til að njóta verndar gegn ofbeldi.

Í barnaverndarlögum nr. 80/2002 er síðan að finna ákvæði, sem veita börnum enn meiri vernd þegar ofbeldið er framið af einhverjum, sem hefur barn í umsjá sinni. Þetta er 98. gr. og er ákvæðið svohljóðandi:

Ef þeir sem hafa barn í sinni umsjá misþyrma því andlega eða líkamlega, misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt, vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin þá varðar það fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.  

Börn, eða forsjáraðilar (foreldrar) fyrir þeirra hönd, eiga fullan rétt á því, eins og allir aðrir, að kæra til lögreglu ef þau eru beitt ofbeldi. Það skiptir ekki máli hver það er sem beitir ofbeldinu, hvort það er kennari, starfsmaður skóla, foreldri eða hver sem er annar. Barn á aldrei að þurfa að líða það að vera beitt ofbeldi.  

Ef kennari eða starfsmaður skóla beitir barn ofbeldi, getur það eða forráðamenn þess leitað til ýmissa aðila eftir stuðningi og til að láta vita um ofbeldið. Þetta geta verið aðilar innan skólans, t.d. skólastjóri, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur eða aðrir starfsmenn. Einnig er hægt að leita til barnaverndarnefndar eða beint til lögreglu.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli