English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Kynlíf og sambönd

Fóstureyðing stúlkna undir lögaldri

Út af hverju mega stelpur ekki fara í fóstureyðingu án foreldra þegar þær eru undir lögaldri? 

Komdu sæl

Þrátt fyrir ríkan rétt foreldra til að ráða persónulegum högum ósjálfráða barns síns, eru þessum rétti settar ýmsar skorður.

Í 13. grein laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir segir að sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði, skulu foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn um fóstureyðingu með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því.  Því má segja að ef ósjálfráða stúlka, 16 eða 17 ára, óskar eftir því við lækni að framkvæmd verði hjá henni fóstureyðing þurfi hann ekki að hafa samráð við forsjáraðila stúlkunnar áður en slíkt er gert.  Þetta ákvæði var reyndar sett þegar sjálfræðisaldurinn var 16 ára, en því hefur ekki verið breytt í takt við hækkaðan sjálfræðisaldur og er því enn í fullu gildi.

Almennt  er talið að  foreldrar hafi rétt til að ákveða hvers konar uppeldi þeir veita börnum sínum en að of mikil íhlutun í málefni þeirra geti verið andstæð grundvallarreglum um sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og  friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Litið er svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt stjórnarskrárákvæði þessu. Réttindi stúlkna 16 ára og eldri til að láta framkvæma fóstureyðingu ganga því framar rétti foreldra/forsjáraðila til að ráða  yfir  persónulegum högum þeirra.

Hins vegar er mjög eðlilegt að foreldrar vilji fá að vera með í ráðum þegar ákvörðun um fóstureyðingu er tekin, enda bera foreldrar ábyrgð á velferð og líðan barna sinna og geta í flestum tilfellum gefið börnum sínum góð ráð og stuðning, m.a. vegna þess að fóstureyðing getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði líkamlega og andlega. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna