English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Skóli

Bent á mig og hlegið að mér í leikfimi.

Ég var í leikfimi og þá byrjuðu stelpur að spyrja hvað ég héti og ég sagði þeim það.  Þá byrjuðu þær að benda á mig og hvíslast á og hlæja!  Hvað á ég að gera?

Komdu sæl

Ef þér líður illa er mikilvægt fyrir þig að ræða um liðan þína við einhvern fullorðinn sem þú treystir, eins og t.d. foreldra eða einhvern annan úr fjölskyldunni.

Þú segir ekki hvort það sem gerðist (þ.e. stelpurnar voru að hvíslast á og hlæja að þér) hafi gerst oft eða hvort þetta hafi bara verið í þetta eina skipti.  Ef þér finnst þetta gerast oft þá má segja að hér sé um einelti að ræða.

Starfsfólk skólans á að sjá til þess að öllum líði vel í skólanum.  En það þurfa allir að hjálpast að og þess vegna er mjög mikilvægt að nemendur bendi kennurum og öðru starfsfólki skólans á vandamálin.  Annars breytist ástandið ekki.

Fyrsta skrefið er þess vegna að láta vita; segja umsjónarkennaranum frá eineltinu. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur sína í persónulegum málum og til þess að bæta ástandið (ræða við gerendurna og fá þá til þess að hætta) er nauðsynlegt að hann viti af þessu. Ef til vill gæti verið gott að fá einhvern með sér til að ræða þetta við umsjónarkennarann, t.d. foreldra eða vinkonu. Námsráðgjafinn gæti líka eflaust hjálpað þér.

Ef þú vilt tala við einhvern utanaðkomandi og spyrja ráða þá vill umboðsmaður benda þér á Þorlák Helgason, sem er framkvæmdastjóri Olwesuarverkefnisins á Íslandi.  Hægt er að hafa samband við Þorlák í síma 894 2098.  Þorlákur aðstoðar nemendur og starfsfólk skóla við að takast á við einelti.  Nánari upplýsingar eru að finna á www.olweus.is

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli