English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 11 ára stelpa | Heilsa og líðan

Sálrænir og félagslegir erfiðleikar og vannæring

Þetta bréf hefur verið stytt af umboðsmanni barna 

Hæ skólinn er hræðilegur!!!! Ég er í skóla út á landi og það er einhver samkennsla sem er hræðileg. Mér líður einfaldlega illa í skólanum, ég er að farast því ég get ekki lært í skólanum. ÉG er að missa bestu vinnkonu mína og líður hræðilega. Ég er alltaf ein í frímínútum og hef ekkert að gera á daginn. Það er stelpa sem kom í 4. bekk, síðan þá hefur vináttan teigst meira og meira. Svo ég held að ég sé þunglynd ég er alltaf svo brjáluð við mömmu mína og ræð ekkert við það. Mér finnst ekkert gaman að rífast sérstaklega ekki við mömmu mína. Svo á ég erfitt með að sofa og nenni ekki að fara í skólan. Mér finnst lífið tilgangslaust og langar oft að fremja sjálfsmorð og ég er bara 11 ára. Ég á mjög erfitt með að borða og er alltaf svöng, það er eins og maginn neiti því. Ég er 11 ára og er 1,40 á hæð og 26 kg. Þetta gengur ekki lengur mér líður ægilega illa og er að veslast upp, þetta versnar og versnar og er búið að vera svona í 2 vikur og nú borða ég bara einu sinni á daginn. Ég reyni alltaf að gera eitthvað í þessu en það tekst ekki. Mig langar ekki að vera lögð inn um jólin plís plís viltu láta mig fá eitthvað ráð við þessu. Ég er að drepast. 

Komdu sæl

Samkvæmt bréfi þínu virðist þú vera að glíma við nokkur vandamál: sálarflækjur í sambandi við vinkonu þína, erfitt samband við móður þína og svo virðist þú vera alvarlega vannærð.  Það er ekkert skrýtið að þetta hafi leitt til depurðar og vanlíðunar hjá þér þó að það sé líklega aldrei hægt að fullyrða um hvað sé orsök og hvað sé afleiðing. 

Vandamálið í sambandi við vinkonu þína gæti aðeins verið tímabundið. Á þessum aldri er eðlilegt að breytingar verði í vinahópum og það getur oft haft áhrif á vinskap þegar einhver nýr byrjar í skólanum.  Þó gæti verið gott að þið vinkonurnar settust niður og reynduð að tala saman um vandamálið vegna þess að það er ekkert víst að vinkona þín geri sér grein fyrir því hve illa þér líður út af þessu. 

Hvað varðar vandamálið við að borða er alveg á hreinu að þú þarft að leita þér hjálpar hjá fagfólki. Nærtækast væri að þú hefðir samband við hjúkrunarfræðinginn í skólanum eða á heilsugæslunni. Það þarf greinilega að athuga ástæður þess að þér gengur svona illa að borða. 

Best væri ef þú gætir rætt um vanlíðan þína við einhvern fullorðinn sem þú treystir, t.d. foreldra, ömmu, afa eða eldri systkini. Mamma þín (og pabbi) bera ábyrgð á því að þér líði sem best og þau vilja alveg örugglega hjálpa þér eins og þau geta.

En ef þér finnst enginn í þinni nánustu fjölskyldu vilja eða hafa tíma til að hlusta á þig, vil ég benda þér á nokkra aðila sem þú getur leitað til. 

Í fyrsta lagi getur þú sest niður og rætt um vanlíðan þína við námsráðgjafann í skólanum þínum en hann/hún á að aðstoða ungt fólk að takast á við persónulega erfiðleika, jafnt sem námstengda erfiðleika. Þú segist eiga erfitt með að sofa og að þú nennir ekki í skólann. Þetta eru einmitt mál sem gott gæti verið að ræða við námsráðgjafann.  Einnig átt þú að geta rætt við umsjónarkennarann þinn um persónuleg mál.

Rauði krossinn er með hjálparsímann 1717 sem er opinn allan sólarhringinn. Þegar þér líður illa og átt erfitt með að finna tilgang með lífinu, hvenær sem er, getur þú hringt þangað og rætt við starfsfólk hjálparsímans í trúnaði. 

Barnaverndin þar sem þú býrð gæti líka hjálpað þér og fjölskyldu þinni. Ekki vera hrædd við að leita þangað. Ef þú vilt hafa samband við hana skaltu ekki hika við það. Við hjá umboðsmanni barna getum líka talað við barnaverndina fyrir þig.

Að sjálfsögðu getur þú líka alltaf skrifað eða hringt hingað ókeypis til umboðsmanns barna (síminn er  800 5999).  T.d. ef þú ert búin að prófa að ræða við foreldra þína eða einhvern annan nákominn og þér finnst þú samt standa alein í þessu skaltu endilega hringja hingað.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna