English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Fæ minnimáttarkennd vegna framkomu kennara

Ég fæ alltaf minnimáttarkennd í skólanum því að einu sinni sagði einn kennarinn frekjulega: "Það hafa allir kennarar skólans rétt á að reka þig út".

Komdu sæl

Það er nú ekki gott ef kennarinn þinn talar frekjulega við þig og lætur þig finna fyrir minnimáttarkennd. Skólinn er vinnustaður bæði nemenda og kennara, þar sem öllum á að líða vel og fólk á að vera kurteist hvert við annað.

Í skólanum gilda skólareglur sem eiga að stuðla að því að starfsandi og skólabragur í skólanum sé sem bestur. Til að það geti orðið þarf að stuðla að vellíðan, gagnkvæmu trausti, virðingu og samábyrgð allra í skólasamfélaginu. Þetta á við um nemendur, kennara, skólastjórnendur og alla aðra sem starfa í skólanum.

Það er reyndar rétt hjá kennaranum, að kennarar hafa heimild til að vísa nemendum úr kennslustund, ef nauðsyn ber til, en það er ekki rétt af honum að hóta þér með þessu.Þú getur rætt þessa framkomu kennarans við umsjónarkennarann þinn eða skólastjórann og einnig getur þú leitað til námsráðgjafans. Einnig getur hjálpað til að ræða svona mál við foreldra eða aðra í fjölskyldunni eða þá góðan vin eða vinkonu.

Með bestu kveðju
frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli