English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Skóli

Ekki nægur stuðningur og aukanámsefni

Okey, þetta á kannski ekki heima herna en eg vil samt spyrja þig kæri umboðsmaður barna... Þannig er mál með vexti í skólanum sem ég er í hef ég beðið um stuðning, aukanámsefni sem er léttara því ég skil ekki némsefnið sem við erum búin að vera i. Ég er nuna i 10.bekk og er alveg 100% viss að ég falli á samrændu prófunum því skólinn minn hefur aldrei gert neitt við því að ég sé léleg i ensku... afhverju? Ber honum ekki skylda að REYNA að gera einhvað fyrir mig? Æji eg veit ekki, vinkona min er alltaf að biðja mig að spyrja aftur og aftur en ég vill bara ekki vera of ágeng. En mig langar samt að ná samrændu... æjh þetta er einhvað svo já... en ber skolanum ekki skylda að gera einhvað?

Komdu sæl

Það er gott hjá þér að leita þér aðstoðar og það er gott að vinkona þín skuli hvetja þig til þess. Það er rétt hjá þér að skólanum ber skylda til að reyna að hjálpa þér ef þú stendur ekki nógu vel í einhverri námsgrein. Nú segir þú ekki hvaða starfsmann skólans þú baðst um aðstoð en rétta leiðin er að ræða þetta mál fyrst við umsjónarkennara. Ef þú stendur sérstaklega illa í ensku ætti enskukennarinn þinn líka að hafa sagt umsjónarkennaranum þínum það, enda á umsjónarkennarinn að fylgjast með því hvernig nemendum hans gengur. 

Námsáðgjafinn í skólanum þínum ætti líka að geta hjálpað þér við að finna leiðir til að bæta árangur þinn í ensku.Ef þér líst betur á að ræða beint við námsráðgjafann þá ætti það að sjálfsögðu að vera í fínasta lagi. Kannski þarft þú bara að læra nýjar aðferðir við að læra.Það þarf ekki að vera svo mikið mál að tileinka sér önnur vinnubrögð – og árangurinn er oft ótrúlegur.

Kannski þarft þú á sérkennslu að halda.  Ef foreldrar þínir, umsjónarkennari eða námsráðgjafinn telja að þú þurfir á sérkennslu að halda þarf að vísa málinu til skólastjóra. Fáðu foreldra þína endilega í lið með þér til að biðja um betri þjónustu.

En þó að skólinn beri ríka skyldu til að hjálpa þeim sem gengur ekki nógu vel í náminu, ber foreldrum líka að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða börn sín. Foreldrar eiga t.d. að sjá til þess að börnin vinni heimanámið og ef foreldrarnir geta ekki aðstoðað börn við það ættu þeir að fá einhvern annan til þess. Sumir krakkar sækja aukatíma í þeim námsgreinum sem þeir vilja bæta sig í.  Það kostar auðvitað peninga sem ekki eru alltaf til staðar. Ef þú og foreldrar þínir viljið athuga með einhvers konar stuðning eða úrræði skulið þið endilega ræða þetta við umsjónarkennarann þinn eða námsráðgjafann.

Í lokin er vert að minna þig á að hugsa jákvætt.Þú átt líka þínar sterku hliðar sem þarf að hlúa að.  Það er erfitt að vera snillingur á öllum sviðum.

Gangi þér vel.

Kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli