English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Ýmislegt

Útivistartíminn: Fæðingarár eða afmælisdagur?

hæ.. þetta er kannski ekkert voðalega áríðandi en mig vantar að vita hvernig útivistartíminn er... fer hann eftir fæðingarári eða afmælisdegi. því ég á afmæli svo seint á árinu og má ég þá ekki vera jafn lengi úti og aðrir vinir mínir sem eru búin að eiga afmæli...því foreldrar mínir halda að það sé eftir afmælisdegi en mér var sagt hitt.. og mig langaði að vita hvort væri rétt..

Komdu sæl 

Spurning þín varðar reglur um útivistartíma barna og unglinga.  Fjallað er um útivistartíma í 92. gr. barnaverndarlaganna, nr. 80/2002: 

92. gr. Útivistartími barna. Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.  

Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.   

Áður voru reglurnar þannig, að miðað var við afmælisdaginn og þá var mismunun milli þeirra sem áttu afmæli snemma á árinu og hinna, sem áttu afmæli seinna á árinu. Nú gilda sömu reglur fyrir alla í sama árgangi og er því miðað við 1. janúar þess árs sem börnin verða 13 eða 16 ára. Mikilvægt er þó að leggja áherslu á að þrátt fyrir að reglur laga um útivistartíma gildi ekki um þá sem verða 16 ára á árinu, þá gilda að sjálfsögðu þær reglur, sem foreldrar setja um útivistartíma barna á heimilinu. Best er auðvitað ef foreldrar og börn geta komist að samkomulagi um útivistartímann, sem og aðrar reglur á heimilinu.

Kveðja frá umboðsmanni barna


 

Flokkur: Ýmislegt