English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Heilsa og líðan

Langar að vera fullkomin og sæt

Hæjj, frábær síða hjá ykkur!  En hérna ég er 13 ára stelpa og mér finnst ég alveg rosalega feit!!! Ég er kannski ekkert eitthvað feit en mig langar svo að vera svona "purfekt" og sæt!  Hvað á ég að gera?  Ég er alltaf úti að labba og svona en svo stenst ég aldrei það sem er óhollt!!

Komdu sæl

Allir hafa hugmynd um hvernig þeir vilja líta út. Yfirleitt er fólk allt of gagnrýnið á sjálft sig og óhóflega miklar kröfur gera ekkert nema auka sjálfsóánægjuna. Þetta á sérstaklega við ungt fólk. Það gæti verið gagnlegt fyrir þig að velta fyrir þér hversu eðlilegar og heilbrigðar fyrirmyndir þínar eru. Og hver veit hvernig þessum stelpum/konum líður?  Ætli þær séu 100% ánægðar með sjálfa sig?  Þú skalt endilega lesa þessa grein um útlit.

Eins og þú hefur eflaust heyrt margoft þá skiptir mestu máli að vera heilbrigður og líða vel – líkamlega og andlega. Hollur matur, hæfileg hreyfing, nægur svefn og góð tengsl við sína nánustu eru allt þættir sem þarf að huga að. Að njóta góðrar máltíðar gefur lífinu vissa fyllingu. Það ætti líka að vera allt í lagi að fá sér skyndibita og nammi öðru hverju. Aðalatriðið er að gæta hófs og hafa í huga að með því að borða næringarríkan mat líður manni betur og hefur meiri orku, t.d. til að hreyfa sig.

Á www.doktor.is er hægt að fræðast um heilbrigt líferni. Þú getur líka fengið viðtal hjá skólahjúkrunarfræðingnum, en hann/hún aðstoðar krakka með alls kyns mál sem varða heilsu og líðan. Einnig gætir þú fengið að tala við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöðinni þinni. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna