English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára strákur | Skóli

Kvíðinn og stressaður fyrir próf

Ég get lítið lært fyrir prófin og er mjog kvíðinn og stressaður. Hvað get ég gert?

Sæll

Fyrst er við hæfi að benda á að stress fyrir próf er eðlilegt og er í sjálfu sér æskilegt því það virkar sem hvati í námi. En þegar stressið snýst upp í kvíða geta málin vandast. Prófkvíði á alvarlegu stigi hefur hamlandi áhrif á árangur.  Hafa ber í huga að góður og skipulagður undirbúningur dregur úr prófkvíða og eins hefur jákvætt hugarfar gríðarlega mikið að segja.

Ef þú hefur lítið getað lært fyrir prófin og ert mjög kvíðinn skaltu tala við námsráðgjafann í skólanum þínum. Einnig ef þú átt erfitt með að einbeita þér og skilja námsefnið eða ef þér líður ekki vel í skólanum eða heima, þá skaltu endilega kíkja í heimsókn til hans. Námsráðgjafinn getur hjálpað þér að takast á við kvíðann og bent þér á leiðir til að undirbúa þig betur fyrir prófin. 

Einnig átt þú að geta leitað til umsjónakennara þíns til að fá ráðleggingar, 

Þó er best að byrja á því að ræða málin við einhvern fullorðinn sem þekkir þig vel og þú treystir, t.d. foreldra, eldri systkini, afa eða ömmu.  Annars er þér velkomið að hringja á skrifstofu umboðsmanns barna til að ræða málin.  Síminn er 800 5999 og er hann opinn frá kl. 9-15.

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli