English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 10 ára stelpa | Skóli

Vinkona mín er lögð í einelti

Er erfitt að sjá til þess að börnum líði vel í skólum. Ég spyr út að því að vinkona mín er oft lögð í einelti.  Hvað get ég gert til að hún verði ekki lögð í einelti?  Við getum aldrei leikið okkur saman í frímínútum því það er alltaf verið að leggja hana í einelti, takk fyrir mig ég er í 5 bekk.

Komdu sæl

Það er mjög gott hjá þér að leita upplýsinga um leiðir til þess að hjálpa vinkonu þinni.  Þegar krakkarnir í skólanum eru að gera lítið úr vinkonu þinni skiptir miklu máli að þú horfir bara ekki á heldur bregðist við og komir henni til hjálpar.

Allt starfsfólk skólanna á að sjá til þess að öllum líði vel í skólanum. En það þurfa allir að hjálpast að og þess vegna er mjög mikilvægt að nemendur bendi kennurum og öðru starfsfólki skólans á vandamálin. Annars breytist ástandið ekki.

Fyrsta skrefið er þess vegna að láta vita; segja umsjónarkennaranum frá eineltinu. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur sína í persónulegum málum og til þess að bæta ástandið (ræða við allan bekkinn eða aðeins gerendurna og fá þá til þess að hætta) er nauðsynlegt að hann og líka skólastjórinn viti af þessu einelti. Vinkonu þinni líður eflaust hræðilega illa og ef hún vill fara og tala við námsráðgjafann í skólanum skaltu endilega hvetja hana til að gera það.  Kannski er betra fyrir hana ef þú ferð með henni.

Annars er þér velkomið að hafa aftur samband hingað á skrifstofu umboðsmanns barna, annað hvort í gegn um heimasíðuna eða beint á ub@barn.is eða í síma 800 5999 (ókeypis númer).

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli