English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Ýmislegt

Staður fyrir börn til að hittast og ræða málin

Hæ. Ég var að hugsa er ekki til einhver staður sem að börn og unglingar geta komið sínum skoðunum á framfæri? Eins og fullorðna fólkið fær að kjósa. Það er kannski ekki rétt af krökkum við fermigar aldur að vilja fá kosningar rétt því að börn á þeim aldri hafa kannski ekki nógu/mis mikinn skilning á pólitískum málum.

Það sem ég vil bara koma á framfæri er að börn eru líka fólk og mér finnst að öllu fólki ætti að sýna tillitsemi til að seiga frá því sem þau vilja eða hafa skoðun á. Börn ættu að fá einhvern stað til þess að hittast og tala um mál sem að skipta í alvörunni máli og það sem ÞEIM börnunum finnst skipta máli. Mér finnst eins og það sé ekki hlustað nógu mikið á okkur. Við erum nú verðandi fullorðnir. Hvað á að undirbúa okkur til þess að hafa skoðannir? Það halda bara sumir að þeir megi ekki hafa skoðanir á stjórnmálum eða þess háttar af því að þau eru börn !!!  

 Komdu sæl og takk fyrir bréfið.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. Barnasáttmálans skal tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Hér getur þú fræðst meira um Barnasáttmálann. 

Í nokkrum sveitarfélögum hafa verið stofnuð sérstök ungmennaráð sem sveitarstjórnin getur ráðfært sig við, til að heyra skoðanir barna og unglinga á ýmsum málum.

Lengst er síðan ungmennaráð tóku til starfa í Reykjavík, en haustið 2001 voru stofnuð átta ungmennaráð, eitt fyrir hvert hverfi borgarinnar. Í janúar 2002 var síðan Reykjavíkurráð ungmenna formlega stofnað, en þar eiga sæti tveir fulltrúar úr hverju ungmennaráði. Markmið Reykjavíkurráðs ungmenna og ungmennaráðanna í hverfunum er að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim, sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Frá því ráðin tóku til starfa hefur fjöldi tillagna komið inn til Reykjavíkurráðs auk þess sem ungmennaráðin hafa fjallað um ýmis mál, sem þau hafa tekið upp að eigin frumkvæði. Einu sinni á ári fundar Reykjavíkurráðið síðan með borgarstjórn og leggur þar fram tillögur ráðsins. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Íþrótta- og tómstundaráðs www.itr.is.

Ef það er ekki til ungmennaráð í þínu sveitarfélagi, þá geturðu haft samband við umboðsmann barna til að fá leiðbeiningar um hvernig best er að standa að stofnun slíks ráðs.  Ef þú vilt gefa kost á því að umboðsmaður leiti til þín til að fá skoðanir þínar á ýmsum málum láttu þá endilega vita með því að senda tölvupóst á ub@barn.is.

Umboðsmaður barna sendi árið 2004 félagsmálaráðherra álit sitt þar sem hvatt er til að sett verði inn í sveitarstjórnarlög nýtt ákvæði sem mæli fyrir um skyldur sveitarstjórna til samráðs við börn yngri en 18 ára.  Umboðsmaður telur að þannig verði réttur barna til áhrifa á þau málefni, sem varða þeirra nánasta umhverfi, best tryggður. Félagsmálaráðherra svaraði erindi umboðsmanns og sagði að starfshópur sem vinnur að því að endurskoða sveitarstjórnarlögin ætli að taka þetta mál til skoðunar.

Umboðsmaður barna hefur gert ýmislegt til að leita eftir skoðunum barna og ungmenna, t.d. haldið ráðstefnur og málþing þar sem börn eru helstu ræðumenn. Ennfremur hefur umboðsmaður barna fengið til liðs við sig nokkra ráðgjafarbekki og lagt fyrir þá spurningakannanir. Einnig hefur umboðsmaður haldið tvö Netþing, þar sem 63 börn af öllu landinu skiptust á skoðunum og settu fram tillögur, eins og gert er á Alþingi. Í febrúar 2004 spurði umboðsmaður barna umbjóðendur sína um álit þeirra á störfum stjórnmálamanna í þágu barna og unglinga. Svörin voru tekin saman og send öllum þingmönnum á Alþingi.

Umboðsmaður barna hefur ennfremur sent menntamálaráðherra tillögu til breytinga á grunnskólalögum á þann veg að skylt verði að setja á laggirnar lýðræðislega kjörið nemendaráð í hverjum grunnskóla. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt