English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Ýmislegt

Of gömul fyrir námskeið - of ung til að vinna!

Af hverju ætli maður fái ekki jafnmörg verkefni og þegar maður var yngri?  Þá var maður vanur að fara á ýmis námskeið en núna (aðalega á sumrin) gefst manni ekkert til að gera.  Maður er OF gamall til að fara á einkverskonar námskeið, (skátanámskeið, skólagaraðar og fleira..) og OF ungur til að fara vinna eða fá sér einhverja létta vinnu... eða jú svosem þá viðurkenni ég það að ég myndi ekki vilja hanga á námskeiðum eða fara í unglingavinnuna en samt er eitthvað sem mér finnst vanta fyrir unglinga sérstaklega á sumrin!

Komdu sæl

Það er alveg rétt hjá þér að það vantar oft verkefni fyrir unglinga á sumrin.  Það er minna í boði af skipulögðu tómstundastarfi og námskeiðum fyrir krakka á þínum aldri heldur en þá sem eru í fyrstu bekkjum grunnskólans, sérstaklega úti á landi. Og þau námskeið sem eru í boði kosta yfirleitt peninga – sem ekki allir eiga nóg af.

Krakkar sem ekki hafa náð 15 ára aldri mega bara vinna mjög létt störf og því getur verið erfitt fyrir þá sem ekki vilja starfa í vinnuskólanum að útvega sér starf við hæfi.  Störfin sem sveitarfélagið (bærinn/borgin) býður unglingum upp á eru þó mjög misjöfn og því væri ekki úr vegi fyrir þig að spyrjast fyrir um hvers konar verkefni unglingarnir í vinnuskólanum fást við. Það gæti vel verið að þetta væri eitthvað sem hentar þér.  Í vinnuskólanum gætir þú lært ýmislegt verklegt og verið í félagsskap annarra unglinga.

Svo getur þú bara notið þess að vera í fríi með fjölskyldu þinni, vinum og vinkonum? Það er örugglega nóg að gera í skólanum á veturna og því er nauðsynlegt að krakkar fái frí til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt og til að slaka aðeins á.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt