English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Fjölskylda

Foreldrar sem öskra á börnin sín

Er leyfilegt að foreldrar öskri á börnin sín eða sýni mjög mikla óþolinmæði og pirring??

Komdu sæl

Stundum þurfa foreldrar að segja börnum sínum til, t.d. ef þau hafa gert eitthvað af sér eða vilja ekki hlýða.  Það er gert til þess að börnin geri sér grein fyrir mistökum sínum og læri af þeim. En það á að koma fram við börn og unglinga af virðingu og það á að sjálfsögðu ekki að öskra á þau.  Það er mjög eðlilegt að samskiptin breytist og það verði fleiri árekstrar þegar börn komast á unglingsár og foreldrar eru að losa um takið á börnum sínum. Það er mikil kúnst að komast í gegn um þennan breytingatíma án árekstra.  Engin fjölskylda er jú fullkomin.

Af bréfi þínu má ætla að foreldrar þínir öskri á þig, séu óþolinmóð og pirruð.  Það er nú stundum þannig að þegar fólki líður illa, þá bitnar það á öllum í kringum þá. Hræðsla og áhyggjur brjótast oft út í reiði. Ef foreldrar vita ekki hvar þú ert eða hvort er í lagi með þig, er eðlilegt að þeir séu áhyggjufullir og pirraðir. Það er auðvelt að lenda í samskiptavítahring án þess að ætla sér það. Foreldrar eru ekki endilega sérfræðingar í samskiptum og þeirra aðferðir við að hefja samræður geta jafnvel hljómað sem ásakanir.

Það mikilvægasta er því að þú látir foreldra þína vita hvernig þér líður þegar þeir eru svona pirraðir. Það er alls ekki öruggt að þau geri sér grein fyrir því. Það besta sem hægt er að gera í svona stöðu er að setjast niður saman og ræða málin. Það er auðvitað ekki víst að þú viljir ræða við foreldra þína ein og því gætir þú leitað til einhvers fullorðinn sem þú treystir og biðja hann um að vera með á “fundinum”.  Þá er hægt að fara yfir málið og reyna að bæta samskiptin.

Ef þið finnið ekki sjálf lausn á vandamálum fjölskyldunnar getur verið mjög gagnlegt að leita ráða hjá fagfólki. Oft sér utanaðkomandi aðili betur í hverju vandamálið liggur. Það eru ýmsir sérfræðingar, sem hægt er að leita til vegna erfiðleika innan fjölskyldna, t.d. má nefna sóknarpresta og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar í Reykjavík. Síminn þar er 562 3600.  Nú kemur ekki fram í bréfinu þínu hvar á landinu þú býrð, en þú getur óskað eftir aðstoð hjá félags- eða fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins þar sem þú býrð, þar sem væntanlega er boðið upp á fjölskylduráðgjöf. Þá getur verið gagnlegt fyrir þig að ræða við námsráðgjafann eða umsjónarkennarann þinn í skólanum þínum.  Í Hinu húsinu í Reykjavík vinna félagsráðgjafar sem starfrækja svokallaða Tótalráðgjöf fyrir ungt fólk.  Þú getur hringt (s. 520 4600), komið, sent bréf eða tölvupóst til þeirra. Heimasíðan er www.totalradgjof.is.  Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda