English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Ég er lögð í einelti í skólanum og vill skipta um skóla.

Ég á marga vini en vil adrei leika við neinn eftir skóla. Ég er mjög lokuð og segji engum hvernig mér líður. Mér finnst enginn skilja mig og enginn tekur mark á mér því ég geri mig heimskari en ég er og er sein að fatta. Einn strákur í bekknum mínum er gjörsamlega búin að brjóta mig niður. ÞAð er alltaf sagt við mig: ,,ekki hlusta á hann" en það þýðir ekkert. Mig langar svo að skipta um skóla, eiga sanna vini. Sem ekki nota mig, og leggja mig í einelti. Ég er búin að spyrja múttu hvort ég meigi skipta en hún vill að ég klári þennan skóla. Allur bekkurinn minn er svakalega barnalegur og er í snúsnú í öllum frímínútum. Mér finnst svo leiðinlegt í snú-snú að ég er alltaf ein...og krakkarnir stríða mér á því og segja að ég sé kennari. Mig langar svo að skipta um skóla. HVað á ég að gera?

Komdu sæl

Þú segist eiga marga vini en þeir noti þig og leggi í einelti. Þú segist líka vilja skipta um skóla og eignast sanna vini. Það er ekki alltaf besta lausnin að byrja upp á nýtt á nýjum stað (þó það geti verið gott í mörgum tilfellum).  Það er greinilega eitthvað að í samskiptum krakkanna í skólanum og það ætti frekar að reyna að laga málin áður en hugað er að því að skipta um skóla.

Þess vegna er nauðsynlegt fyrir þig að láta vita af því hvernig þér líður í skólanum.  Fyrst og fremst skalt þú reyna að fá mömmu þína til að setjast niður með þér og láta hana vita hvernig þér líður. Þú (og mamma þín) átt að geta talað við umsjónarkennarann þinn og námsráðgjafann um svona persónuleg mál. Þeir geta tekið á eineltinu í samræmi við eineltisáætlun skólans.  Allir skólar eiga að vera með eineltisáætlun.  Flestir vinna eftir Olweusaráætluninni svokölluðu. Framkvæmdastjóri Olwesuarverkefnisins á Íslandi er Þorlákur H. Helgason. Hægt er að hafa samband við Þorlák í síma 894 2098 eða með því að senda tölvupóst á thorlakur@khi.is.  Þeir sem hafa reynslu af einelti og líður illa í skólanum geta haft samband við hann (líka þótt skólinn vinni ekki samkvæmt Olweusaráætluninni). 

Þegar þér líður illa og finnst enginn skilja þig eða hlusta á þig getur þú svo alltaf hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717.  Það kostar ekkert og það er svarað í hann allan sólarhringinn.

En þú skalt líka hafa í huga að það eru til ýmsar leiðir til að eignast nýja vini.  Þú gætir t.d. athugað með námskeið, klúbb eða íþróttafélag sem hentar áhugamáli þínu. Það skiptir miklu máli að reyna að vera jákvæð.  Námsráðgjafinn í skólanum þínum getur örugglega hjálpað þér með að finna leiðir sem henta þér.

Með von um að ástandið fari að batna,
kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli