English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Heilsa og líðan

Afi minn var að deyja og ég get ekki náð mér eftir það

Afi minn var að deyja og annar.  Og það var fyrir nánast fjórum mán. ég get alls ekki náð mér eftir það.  Eg er alltaf að hugsa hvernig ég eigi að drepa mig.  Eg sakna þeirra svo.  EG hugsa og hugsa hvernig ég eigi bara að enda þetta líf. Hvað geri ég nú?

Komdu sæl

Það er alltaf erfitt að missa einhvern nákominn. Við dauðsfall er eðlilegt að það komi upp tilfinningar sem þú kannast ekki við. Það sem þú þarft að gera er að segja einhverjum sem þú treystir vel (eins og t.d. foreldrum þínum, eldri systkium eða ömmu) frá því hvernig þér líður og hve mikið þú saknar afa þíns.  Best væri að allir í fjölskyldunni myndu ræða saman og takast á við sorgina í sameiningu.

Í bókinni Hvað er málið? eftir Berglindi Sigmarsdóttur og Sigríði Birnu Valsdóttur er mjög gagnlegur kafli sem heitir “Dauðsfall í fjölskyldunni”.  Þar segir m.a.:

Það getur verið óþægilegt að sýna tilfinningar þegar allri fjölskyldunni líður illa og sérstaklega þegar foreldri eða yngri synstkini eiga mjög erfitt.  Auðvelt er að falla í þá gryfju að setja upp grímu, fela tilfinningarnar og finnast maður bera meiri ábyrgð á heimilinu og þurf að vera sterk(ur) og dugleg(ur) fyrir hina í fjölskyldunni.

Eðlileg viðbrögð við dauðsfalli:

  • Höfuðverkur, ógleði, uppköst og skjálfti.
  • Óstöðvandi grátur.
  • Reiði.
  • Illskuköst
  • Svefntruflanir, martraðir.
  • Sektarkennd, sjálfsásakanir.
  • Endurupplifun á atburði.
  • Óraunveruleikatilfinning, líða eins og dauðinn geti ekki hafa átt sér stað.
  • Hræðsla við dauðann, ótti við að missa fleiri ástvini.

Foreldrar þurfa ekki á styrk þínum og dugnaði að halda á slíkum stundum heldur samstöðu. Allir í fjölskyldunni þurfa að tala saman og takast á við sorgina í sameiningu.

Hafðu í huga að flótti er skammvinn lausn. Að þegja er það versta sem gert er í sorg. Ef ekki er talað og hugsað um það sem gerðist verður erfiðara að takast á við það sem á eftir kemur. Allir þurfa að takast á við sorg og ef það er  ekki gert strax þarf að gera það seinna og þá er ekki víst að nokkur skilji eða átti sig á ástæðu sorgarinnar.

Margir upplifa létti við að gráta og maður græðir á því að gráta með þeim sem finna jafnmikið til og maður sjálfur.

Ástvinur gleymist ekki og á alltaf stað í hjarta manns. En það er hægt að lifa með sorginni og það verður auðveldara eftir því sem tíminn líður. Það er engin skömm að því að skemmta sér og njóta lífsins þótt ástvinur hafi kvatt.  Sorgin getur þó komið aftur þegar síst er von á henni en hún líður alltaf hjá og góðu stundirnar verða fleiri og fleiri.   (Hvað er málið? bls. 63-64)

Þó þú saknir afa þíns ofsalega mikið þá verður þú að hafa hugfast að þú getur lifað með sorginni. Þú átt lífið framundan og ef þú bara reynir þá getur þú alveg örugglega fundið ýmislegt sem gefur lífinu gildi – t.d. fjölskyldan, vinir og vinkonur, félagslífið, skólinn, áhugamálin.... Afi þinn hefði alveg örugglega viljað sjá þig hamingjusama og jákvæða.

En ef þér finnst enginn í þinni nánustu fjölskyldu vilja eða hafa tíma til að hlusta á þig, vil ég benda þér á nokkra aðila sem þú getur leitað til. 

Í fyrsta lagi getur þú sest niður og rætt um sorg þína og vanlíðan við námsráðgjafann í skólanum þínum en hann/hún á að aðstoða ungt fólk að takast á við persónulega erfiðleika, jafnt sem námstengda erfiðleika.

Einnig átt þú að geta rætt við umsjónarkennara og skólahjúkrunarfræðinginn. 

Svo má nefna presta, en mörgum finnst mjög gott að fara til prestsins síns og ræða við þá um erfiðleika sína. Jafnvel þótt þú þekkir sóknarprestinn þinn ekki neitt, þá átt þú samt að geta komið til hans eða hennar með vandamál þín og hugleiðingar. Stór hluti af starfi presta og djákna er að hugga fólk sem hefur misst ástvini og hjálpa því að horfa fram á veginn.

Rauði krossinn er með hjálparsímann 1717 sem er opinn allan sólarhringinn.  Þegar þér líður illa getur þú hringt þangað og rætt við starfsfólk hjálparsímans í trúnaði. 

Að sjálfsögðu getur þú líka alltaf skrifað eða hringt hingað ókeypis til umboðsmanns barna (síminn er  800 5999).  Hér átt þú fullan trúnað.

Ég vona að þér gangi vel að takast á við sorgina þannig að þú getir farið að horfa björtum augum fram á veginn.

Kveðja frá umboðsmanni barna