English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Kynlíf og sambönd

Má maður ekki gista heima hjá kærastanum sínum þegar maður er orðinn 16 ára?

Má maður ekki gista heima hjá kærastanum sínum þegar maður er orðinn 16 ára?

Komdu sæl

Foreldrar þínir ráða því hvort þeir leyfa þér að gista þar eða ekki en þeir eiga samt að hlusta á þig og virða skoðanir þínar. Foreldrar fara með forsjá barna sinna þar til þau verða 18 ára gömul. Í því felst að foreldrar ráða persónulegum högum barns, m.a. með því að ákveða hvar það dvelur. Foreldrar skulu annast barn sitt, sjá því fyrir mat, klæðnaði og húsnæði og vernda það fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi og ákveða almennt hvernig uppeldi barn þeirra fær.

Í barnalögunum segir þó einnig að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en persónulegum málefnum þess er ráðið til lykta og skal þá m.a. tekið tillit til þroska barnsins. Þetta þýðir að þegar barn hefur náð ákveðnum þroska, skal tekið aukið mið af óskum þess, sérstaklega þegar fjallað er um mikilvæga þætti í lífi barnsins.

Foreldrar þínir eiga því að ræða þessi mál við þig, þannig að þú getir komið þínum athugasemdum og sjónarmiðum á framfæri við þau. Skoðun þín á málinu á að skipta miklu máli, þar sem þú ert orðin 16 ára og samkvæmt lögunum eykst vægi skoðana barnsins eftir því sem það verður þroskaðra.  Þar sem foreldrum ber skylda til að vernda börn sín geta þeir samt ákveðið að leyfa þér ekki að gista þar, t.d. ef þeir hafa áhyggjur af því að þú sért ekki örugg hjá kærastanum, hann býr of langt í burtu, hann er mun eldri en þú o.s.frv.

Best væri að þið gætuð sest niður saman til að ræða málið og reyna að komast að niðurstöðu, sem allir geta sætt sig við.

Með bestu kveðju
frá umboðsmanni barna