English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Fjölskylda

Hvað má og hvað má ekki gera við börn?

Hæ. Ég var að velta fyrir mér hvort þú gætir birt grein eða dálk þar sem stendur nákvæmlega hvað má og má ekki gera við börn.. hvernig er brotið á reglum okkar.

Foreldrar mínir lemja mig og mér hefur verið nauðgað og allt er í hassi... en ég vil að það sé gert eitthvað í því... þannig að vinsamlegast... ef það er leyft með lögum að beita börnin sín ofbeldi og öllum er virkilega sama þá vil ég vita það.. svo ég sé nú ekki að kvarta að óþörfu!!!! meðal annars... afsakið orðbragðið.. ég er bara að verða búin að fá nóg. 

Komdu sæl

Í bréfinu þínu lýsir þú ofbeldi sem þú verður fyrir af hálfu foreldra þinna og að þér hafi verið nauðgað. Fyrst og fremst vill umboðsmaður barna koma því á framfæri við þig að ekkert barn á að þurfa að líða það að vera beitt ofbeldi, hvorki á heimili sínu né annars staðar. Það er bannað með lögum að beita börn ofbeldi, hvort sem um er að ræða foreldra, aðra fjölskyldumeðlimi eða utanaðkomandi aðila. Kynferðislegt ofbeldi er alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja gagnvart börnum.
 
Um þessi mál er fjallað í ýmsum lögum, t.d. barnaverndarlögum en þar segir að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Barnaverndarnefnd metur svo hvernig er best að bregðast við í samræmi við hagsmuni barnsins.

Svo má nefna barnalögin, þar sem segir að foreldrum beri að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.

Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Samkvæmt barnalögunum hvílir því skylda á foreldrum að vernda börnin sín fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi, en í þessu felst ekki aðeins að þau eigi að vernda þau fyrir ofbeldi frá öðrum, heldur mega þau sjálf ekki beita þau ofbeldi. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að börn eiga ekki að þurfa að þola það að vera beitt ofbeldi, allra síst af foreldrum sínum.
 
Í almennum hegningarlögum er fjallað um ofbeldisbrot, þ. á m. kynferðisbrot gegn börnum. Ef þessi lög eru brotin getur refsingin orðið sektir eða fangelsi.
 
Hvað varðar nauðgunina ert þú vonandi búin að segja einhverjum fullorðnum frá og kæra hana til lögreglu. Ef þú hefur ekki þegar haft samband við Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana á Landspítalanum Fossvogi, þar sem þolendum kynferðisofbeldis er veitt hjálp, ráðgjöf og stuðningur, ættir þú að gera það sem fyrst.  Síminn er 543 2019 en beinn sími til vaktstjóra hjúkrunar er 543 2094. 
 
Þú getur byrjað á því að leita til einhvers fullorðins sem þú treystir og bera málið undir hann. Þá er hægt að fara yfir málið og finna út hvað best sé að gera í stöðunni. Það er hægt að leita til ýmissa aðila eftir stuðningi og til að láta vita um ofbeldi, t.d. skólastjóra, umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings.

Stígamót eru samtök sem veita fórnarlömbun kynferðisbrota hlustun, ráðgjöf og stuðning.  Þú skalt alveg endilega kynna þér starfsemi þeirra á www.stigamot.is.

Einnig getur þú leitað til barnaverndarnefndar eða beint til lögreglunnar til að kæra ofbeldið. Síminn er 112.

Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum. 

Þér er líka velkomið að hringja hingað til okkar hér á skrifstofu umboðsmanns barna til að ræða málin, gjaldfrjálsa númerið okkar er 800 5999 og hér átt þú fullan trúnað.

Við erum oft að velta fyrir okkur hvernig er best að fræða börn og unglinga um réttindi sín og ábyrgð. Takk fyrir ábendinguna.
 
Með bestu kveðju
frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda