English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Heilsa og líðan

Ég þjáist af þunglyndi... hvað á ég að gera?

Ég þjáist af þunglyndi... hvað á ég að gera?

Komdu sæl

Það sem þú þarft að byrja á að gera er að segja einhverjum frá því hvernig þér líður. Best væri að þú myndir setjast niður með foreldrum þínum til að ræða málin í rólegheitum. Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni.  Þeim ber að sýna þér umhyggju og haga málum eins og er þér fyrir bestu. Annars getur þú talað við einhvern annan sem þú treystir vel eins og t.d. eldri systkini, ömmu eða afa eða frændfólk.

Ef þér líður illa og þér finnst enginn í kring um þig vilja eða hafa tíma til að hlusta á þig, vill ég benda þér á nokkra aðila sem þú getur leitað til. Í fyrsta lagi getur þú spjallað við skólahjúkrunarfræðinginn. Hann/hún aðstoðar krakka með vandamál sem tengjast heilsu og líðan og leiðbeinir um næstu skref ef þú þarft frekari aðstoð til að takast á við þunglyndið. Einnig getur þú talað við námsráðgjafann í skólanum þínum en hann/hún á að aðstoða ungt fólk að takast á við persónulega erfiðleika, jafnt sem námstengda erfiðleika. Svo átt þú líka að geta rætt við umsjónarkennarann þinn.

Barna- og unglingageðdeildir (BUGL) veita þjónustu til barna og unglinga með tilfinninga- og/eða hegðunarvanda. BUGL býður upp á unglingasíma sem er 543 4357.

Geðorðin tíu er líka sniðugt tæki sem gætu hjálpað þér að ná betra jafnvægi á geðheilsuna.

Geðhjálp berst fyrir hagsmunum geðsjúkra og geðfatlaðra og stuðlar að fræðslu um geðraskanir.  Á heimasíðu félagsins er að finna mjög gagnlegar upplýsingar um geðraskanir. Hjá Geðhjálp starfar sálfræðingur sem hægt er að ræða við í trúnaði í síma 570 1700.

Svo vil ég benda þér á eitt ráð sem þú skalt endilega nýta þér. Rauði krossinn er með hjálparsímann 1717 sem er ókeypis og opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða þá sem ekki sjá tilgang með lífinu. Þegar þér líður illa getur þú hringt í 1717 og rætt við starfsfólk hjálparsímans í trúnaði.

Að sjálfsögðu getur þú líka alltaf skrifað eða hringt hingað ókeypis til umboðsmanns barna (síminn er 800 5999). 

Vona að þetta hjálpi!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna