English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Ýmislegt

Um lögheimilisbreytingu

Eru til lög sem að skilda börn undir lögaldri til að hafa lögheimili hjá foreldrum sínum? Er t.d. ekki hægt fyrir 16 ára ungling á leið í framhaldsskóla í öðru sveitarfélagi en foreldrarnir búa í, að breyta um lögheimili? Og þá er ég að meina með samþykki foreldranna.  Gæti maður t.d. ekki haft lögheimili hjá systkini?

Komdu sæl

Almennt er það þannig að ólögráða börn hafa lögheimili hjá foreldrum sínum eða öðrum sem fara með forsjá þeirra. Þessi meginregla birtist í lögum um lögheimili, þar sem segir í 8. gr.:

Barn 17 ára eða yngra á sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir búa saman, ella hjá því foreldrinu sem hefur forsjá þess. Hafi barn fasta búsetu hjá því foreldri sem ekki hefur forsjá þess skal það eiga þar lögheimili enda sé forsjárforeldri samþykkt búsetunni. Hafi forsjá barns ekki verið falin öðru hvoru foreldranna á barnið sama lögheimili og það foreldri sem það býr hjá. Búi barn hjá hvorugu foreldra sinna á það lögheimili þar sem það hefur fasta búsetu.

Eins og fram kemur í lok ákvæðisins getur barn haft lögheimili sitt þar sem það hefur fasta búsetu, búi það ekki hjá foreldrum sínum. Á heimasíðu Hagstofu Íslands, sem fer með þessi mál kemur m.a. fram að tilkynningu 17 ára barna og yngri þurfi að fylgja skriflegt samþykki forsjármanns/manna. Nánari upplýsingar getur þú fengið hjá Hagstofu Íslands, síminn þar er 569 2900.

Með bestu kveðju frá umboðsmanni barna 

Flokkur: Ýmislegt