English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Ýmislegt

Lögin segja hvenær börn eiga að vera kominn inn en ekki hvenær þau mega fara út aftur!

Jamm þetta er í sambandi við útivistarreglurnar... ég er að spá sko sjáðu nú til... Börn 13-16 ára verða að vera komin inn kl 24:00 eftir 1.mai til 1.september... En það er aldrei tekið fram hvenær má hleypa okkur aftur út!   En er þessi rökfærsla sem ég fann á einhverri heimasíðu ekki rökfræðilega rétt? Börn 13-16 ára verða að vera komin inn kl 24:00 eftir 1.mai til 1.september enn hvað varðar önnur mörk á þessum útvistartíma þá er ekki skilgreint, hvorki í lögum né reglugerðum með beinum hætti hvenær óhætt eða leyfilegt sé að hleypa börnunum út aftur. Hins vegar má finna þess konar tímamörk í ákvæðum um almennan svefnfrið og næturró. Í lögum um fjöleignarhús, nr. 26 frá 1994 segir í 74. gr. að bannað sé að raska svefnfriði og markast sá tími svefnfriðar frá miðnætti til klukkan 7 næsta morgun. Þessi lög gilda bara um fjöleignarhús en telja má út frá þessu sjónarmiði að útivistartími unglinga sé 23 klukkustundir og 59 min semsagt unglingar þurfa að koma heim klukkan 24:00 og meiga fara út klukkan 24:01 en mega hins vegar ekki raska svefnfrið á neinn hátt í þessa 7 klukkutima eða frá 24:00 til 07:00 ! ! ! ! jamm endilega komdu með þína skoðun á þessu... ;D

Komdu sæl

Ákvæði um útivistartíma barna og unglinga er í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 50/2002.

Þú spyrð hvenær sólarhringsins börnum sé heimilt að fara út aftur eftir að útivistartíminn er liðinn. Þó að það segi ekki beint í lögunum hefur almennt verið litið svo á að það hvenær börn megi fara út aftur að morgni skuli miðast við almennan fótaferðatíma. Ekki hefur ríkt ágreiningur um túlkun á þessu ákvæði.

Markmiðið með þessum útivistarreglum er auðvitað fyrst og fremst að vernda börn og unglinga. Verndin beinist bæði að því að þau séu ekki úti seint á kvöldin og nóttinni, sem getur verið hættulegt þegar myrkur er og fáir á ferli, en líka að því að börn og unglingar fái nægan svefn svo þeim líði t.d. vel í skólanum og hafi næga orku til að læra. 

Með bestu kveðju frá umboðsmanni barna
 

Flokkur: Ýmislegt