English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Heilsa og líðan

Er frekar þybbin og vil ekki fara í skólasund

Halló...ég er frekar þybbin stelpa...og ég bara vil alls ekki fara í skólasund og skrópa í hvern einasta tíma. Verð ég virkilega að fara í skólasund? Allar stelpur í skolanum eru að tala um hvað það er ljótt að vera með stór brjóst (ég er með stór) og ég vil bara að enginn sjái mig svona nakta...ég þekki það að stelpur dæma hvora aðra...horfa uppá hvor aðra og dæma líkamann hjá öðrum :S plís viltu hjálpa mér að ég þurfi ekki að fara í skólasund?? p.s. ég kann að synda og þarf ekki að læra það neitt professional

Komdu sæl

Þú ert alls ekki ein um að líða illa vegna útlitsins. Allir hafa hugmynd um hvernig þeir vilja líta út og yfirleitt er fólk allt of gagnrýnið á sjálft sig.  Þetta á sérstaklega við ungt fólk.  Þú ættir að fá viðtal hjá skólahjúkrunarfræðingnum, en hann/hún aðstoðar krakka sem líður illa og hjálpar þeim að líta á björtu hliðarnar. 

Ef þú upplifir stríðni vegna þess að þú fellur ekki alveg að einhverri staðlaðri ímynd skólasystra þinna þá ættir þú jafnvel líka að hafa samband við námsráðgjafann í skólanum. Hann aðstoðar krakka í persónulegum vanda og gæti jafnframt, í samstarfi við aðra í skólanum, tekið á stríðninni eða gagnrýninni hjá hinum stelpunum.

Þú ættir ekki að þurfa að skrópa í sund vegna vanlíðunar. Þetta mál hlýtur að vera hægt að leysa öðruvísi. Auk þess er sund holl hreyfing, sérstaklega ef þú hreyfir þig ekki mikið utan skólatíma.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna