English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Slæm reynsla af danskennslu

Mér finnst að það ætti ekki að vera danskennsla í skólanámskrá. Óvinsælu krakkarnir sem eru ekki boðnir upp þjást af litlu sjálfsáliti allan tímann og eru lengi að jafna sig á eftir. Ég tala af eigin reynslu!

Komdu sæl

Í erindi þínu til umboðsmanns barna fjallar þú um danskennslu og hvað það geti haft slæm áhrif á sjálfsálit nemenda að vera ekki boðið upp í danstímum.

Í þeim hluta aðalnámskrár grunnskóla, sem fjallar um listgreinar segir m.a. um dansnámið:

Dans eflir hreyfiþroska barnsins og sjálfsvitund, hann stuðlar að eðlilegum félagslegum samskiptum, eflir sjálfsöryggi og er gleðigjafi sem vinnur gegn streitu. Dans eykur tillitssemi í mannlegum samskiptum og stuðlar að eflingu samkenndar í bekkjarheildum. Með kennslu í dansi eigin menningar og annarra má efla skilning á hefðum og menningu, bæði eigin þjóðar og annarra. Dansinn er mikilvægur í þroskaferli sérhvers einstaklings svo að hann fái notið sín í samfélagi manna.

Nokkru síðar í textanum segir síðan að við skipulagningu dansnámsins eigi m.a. að hafa í huga að það stuðli að öryggiskennd einstaklinga innan hópsins og tillitssemi við aðra.

Af bréfi þínu má ráða að danskennslan hafi þveröfug áhrif á þig og fleiri, sem ekki hafið mikið sjálfstraust. Þetta ættuð þið nemendurnir endilega að ræða við danskennarann eða einhvern annan innan skólans sem þið treystið, t.d. skólastjórann eða umsjónarkennarann. Dansnáminu er ekki ætlað að hafa þau áhrif að draga úr öryggi nemenda, heldur þvert á móti að auka sjálfstraust og efla samkennd, eins og kemur fram hér að framan.

Það hlýtur að mega breyta fyrirkomulagi danstímanna, til að líklegra sé að það markmið náist.

Ef þú ert ekki búin að segja foreldrum þínum frá þessu þá mælum við með því. Þau geta líka haft samband við skólann og bent á mikilvægi þess að breyta danskennslunni.

Með bestu kveðju
frá umboðsmanni barna


 

Flokkur: Skóli