English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára drengur | Ýmislegt

Skráning í pólitískt félag

Þarf ég leyfi foreldra minna til að ganga í pólitískt félag?

Komdu sæll

Foreldrar eða aðrir forráðamenn fara með forsjá barns þar til það hefur náð 18 ára aldri, sbr. 28. gr. barnalaga. Í þessari lagagrein er einnig mælt svo fyrir að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru börn sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi óháð réttindum fullorðinna. Í 15. gr. sáttmálans segir m.a. að viðurkenndur sé réttur barns til að mynda félög með öðrum og koma saman með öðrum með friðsömum hætti. Þessi réttindi eru ekki háð öðrum takmörkunum en þeim sem settar eru í samræmi við lög og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna öryggis þjóðarinnar eða almennings, allsherjarreglu, verndunar heilbrigðis almennings eða siðgæðis eða verndunar réttinda eða frelsis annarra. Þá segir í 14. gr. að virða skuli rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.

Þetta þýðir að þú átt að eiga rétt á að ganga í félög án samþykkis foreldra þinna, hvort sem þau fást við stjórnmál eða annað, svo framarlega sem þau starfa í samræmi við lög og reglur samfélagsins og að félagsskapurinn teljist almennt ekki hafa skaðleg áhrif á þig eða aðra.

Samkvæmt reglum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna er miðað við að fólk verði að vera orðið 15-16 ára til að fá inngöngu.

Með bestu kveðju frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt