English Danish Russian Thai Polish

Skólamál

Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda í grunnskólum

Nemendur eiga að sækja grunnskóla nema þegar þeir eru veikir eða þurfa að fá leyfi af öðrum ástæðum.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska þeirra.

Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra.

Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

Nemendur eiga að fara eftir skólareglum. Viðbrögð við brotum á skólareglum skulu vera í samræmi við brotið og alltaf á að velja vægasta úrræðið sem er til þess fallið að ná fram settu markmiði. Gæta skal jafnræðis og samræmis í viðbrögðum og taka tillit til aðstæðna hvers og eins. Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum. Nánar um skólareglur og aga neðar á þessari síðu.

Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskólinn er vinnustaður nemenda. Þar skal gætt að því að:

 • nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna,
 • vinnuálag sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægilega hvíld og
 • námsumhverfi sé hvetjandi og nemendur njóti vinnufriðar

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Nemendur eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi ef þeir eiga erfitt með nám, t.d. vegna

 • sértækra námserfiðleika,
 • tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika,
 • fötlunar,
 • leshömlunar,
 • langvinnra veikinda eða
 • annarra heilsutengdra sérþarfa. 

Ef móðurmál barns er annað en íslenska á það rétt á sérstakri íslenskukennslu í skólanum sínum.

Barn og foreldrar þess eiga rétt á upplýsingum um einkunnir barns og einnig að skoða próf sem búið er að gefa einkunn fyrir.

Meira um grunnskóla hér.

Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda í framhaldsskólum

Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla og stunda nám til 18 ára aldurs.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Þeir eiga að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Ef nemandi hegðar sér mjög illa ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans.

Nemendur eiga rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Allir nemendur framhaldsskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.

Framhaldsskóli er vinnustaður nemenda. Framhaldsskóli skal haga störfum sínum þannig að:

 • nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna,
 • vinnuálag verði ekki of mikið miðað við almenn vinnuverndarsjónarmið.

Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla

Nemendur með fötlun og nemendur með tilfinningalega eða félagslega örðugleika eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðning í námi, t.d. með aðstoð sérfræðinga og viðeigandi aðbúnaði eftir því sem þörf krefur.

Meira um framhaldsskóla hér.