English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Þegar foreldrar búa ekki saman

Foreldri Og Boern Ad Borda

Gott að hafa í huga

Fjölskyldur eru alls konar. Mörg börn búa ekki með báðum foreldrum sínum. Öll börn eiga rétt á að þekkja og vera með báðum foreldrum sínum ef það er hægt, þó að þeir búi ekki saman. Foreldrar bera saman ábyrgð á börnum og þeir eiga að vera góðir við börnin sín. 

Sum börn eiga foreldra sem hafa aldrei búið saman eða þekkjast lítið á meðan önnur börn eiga foreldra sem voru par en ákváðu að skilja eða hætta að búa saman. Svona aðstæður geta verið jafn flóknar og stundum erfiðar. Mestu máli skiptir að foreldrarnir geti átt góð samskipti sín á milli og við barn sitt.  Ef það gengur illa getur verið gott að fá aðstoð frá fagfólki. Foreldrar eiga að láta hagsmuni barnsins ganga framar sínum eigin hagsmunum. Það þýðir að börnin eiga að vera í fyrsta sæti og það á að taka ákvarðanir í samræmi við það sem er best fyrir barnið.

Skilnaður eða sambúðarslit foreldra

Skilnaðir eða sambúðarslit foreldra geta verið sársaukafull fyrir börn. Það er lítið hægt að gera til að komast hjá því. Skilnaður er samt oft skynsamleg lausn því þó að skilnaður sé öllum erfiður getur slæmt samband foreldra verið enn verra fyrir barnið.

Skilnaður foreldra kemur börnum oft á óvart og er því mikið áfall, jafnvel þó að spenna og óhamingja hafi ríkt á heimilinu lengi. Börn og unglingar geta yfirleitt ekkert gert til að koma í veg fyrir skilnaðinn þó að flest börn haldi fast í vonina um að foreldrarnir geti sameinast aftur. Börnin eiga enga sök á málum og þau bera ekki ábyrgð. Foreldrarnir verða að bera ábyrgð á eigin hamingju. Þó að foreldrarnir elski hvort annað ekki lengur elska þeir börnin sín að sjálfsögðu alveg jafn mikið og áður.

Viðbrögð barna eru oftast sterkust fyrst en einmitt þá eru foreldrarnir sjálfir uppteknir af eigin vandamálum og oft ekki tilbúnir að veita börnum sínum stuðning. Algeng viðbrögð barna eru m.a. viðkvæmni, tilfinningasveiflur, ráðríki og reiði, sorg, vonbrigði, depurð, óöryggi, einbeitingarerfiðleikar og höfuð- og magaverkir.  Öll þessi viðbrögð eru eðlileg og ganga yfirleitt yfir með tímanum. Allir eru þó misjafnir og bregðast mismunandi við erfiðleikum.  Mikilvægast er að vera óhræddur við að ræða málin og biðja um hjálp. 

Börn eiga rétt á upplýsingum um mál sem varða þau persónulega. Skilnaður hefur djúpstæð áhrif á börn og því er best að þau þurfi ekki að upplifa mikla óvissu um framtíðina. Barn í þessum aðstæðum getur t.d. beðið foreldra sína að setjast niður með sér til að ræða um þá ákvörðun sem þau eru búin að taka og um framtíðina. Stundum geta foreldrar þó einfaldlega ekki gefið svör við öllu því sem barninu liggur á hjarta. Þá getur verið gott að ræða við einhverja aðra fullorðna sem maður treystir til þess að fá stuðning, til dæmis innan fjölskyldunnar eða í skólanum. 

Hugtök

Hér fyrir neðan eru nokkur hugtök sem gott er að þekkja þegar foreldrar búa ekki saman. 

Forsjá - Þeir sem fara með forsjá barna bera ábyrgð á því að taka stórar ákvarðanir fyrir þau. Yfirleitt eru það foreldrar sem fara með forsjá barna. Forsjá getur annaðhvort verið sameiginleg eða hjá einu foreldri. 

Sameiginleg forsjá - Foreldrar sem búa saman fara með sameiginlega forsjá. Þegar foreldrar búa ekki saman getur forsjáin líka verið sameiginleg, en það þýðir að foreldrar þurfa að taka sameiginlega allar stórar ákvarðanir sem varða barn þeirra.  

Lögheimili -  Sá staður sem barn er með skráða búsetu. Yfirleitt býr barn hjá því foreldri sem fer með forsjá. Ef foreldrar eru með sameiginlega forsjá en búa ekki saman þarf að ákveða hjá hvoru þeirra barn á að eiga lögheimili. 

Umgengni - Þegar barn hittir eða á önnur samskipti við foreldri sem það á ekki lögheimili hjá er það kallað umgengni. Umgengni er mismikil, en algengt er að börn séu a.m.k. aðra hvora helgi í umgengni. 

Jöfn umgengni (vika og vika) - Þegar barn „býr“ á tveimur heimilum, þ.e. er jafnlengi eða nánast jafnlengi heima hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá og því foreldri sem það á ekki lögheimili hjá. Þetta er oft kallað viku og viku fyrirkomulag, en fyrirkomulagið getur líka verið styttri eða lengri tími í einu. 

Lögheimilisforeldri - Það foreldri sem barn á lögheimili hjá. Lögheimilisforeldri getur tekið sumar ákvarðanir fyrir hönd barns, t.d. um skólavist og venjulega og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. 

Umgengnisforeldri - Það foreldri sem barn á ekki lögheimili hjá en dvelst hjá reglulega. Umgengnisforeldri getur annað hvort verið með sameiginlega forsjá yfir barninu eða forsjárlaust.

Forsjárlaust foreldri - Foreldri sem fer ekki með forsjá barns. Forsjárlausir foreldrar bera samt sem áður ýmsar skyldur við barnið, t.d. þegar kemur að framfærslu, vernd og að hitta barnið reglulega (nema það sé ekki talið gott fyrir barnið).

Meðlag  - Peningur sem það foreldri sem barn býr ekki hjá greiðir lögheimilisforeldri. Meðlagið telst hluti af framfærslu barns og á að nota í það sem barnið þarf, t.d. mat, föt, íþrótta- og tómstundastarf o.s.frv.

Sýslumaður - Dómari - Ef foreldrar eru ekki sammála um forsjá, umgengni, búsetu eða meðlag þurfa þeir að fara til sýslumanns og fá aðstoð við að ná sátt. Ef það dugar ekki getur sýslumaður tekið ákvörðun um umgengni og  meðlag.  Það er hins vegar bara dómari sem getur tekið ákvörðun um forsjá eða lögheimili. Barn á alltaf rétt á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin hjá sýslumanni eða dómara og það á að taka tillit til vilja barns og því sem er talið best fyrir það. 

Ef þú vilt fá nánari útskýringar á þessum hugtökum eða vilt spyrja að einhverju skaltu endilega hafa samband við umboðsmann barna í s. 800 5999, á netfangið ub@barn.is eða með því að fylla út fyrirspurnarformið neðst á síðunni.

Hvar á ég að búa?

Þegar foreldrar búa ekki saman þarf að taka ákvörðun um það hjá hvoru þeirra barnið á að búa. Það eru foreldrar sem þurfa að taka þessa ákvörðun fyrir yngri börn en öll börn sem geta tjáð sig eiga rétt á því að segja sína skoðun og hafa áhrif á það hvar þau búa. Börn eiga að hafa meiri áhrif eftir því sem þau eldast og þroskast og eiga unglingar t.d. að ráða mestu um það hvar þeir búa. Barn á samt aldrei að þurfa að velja á milli foreldra sinna ef það vill það ekki og er það þá hlutverk foreldranna að ákveða hvað er barninu fyrir bestu.  

Umgengni

Barn á rétt á að halda sambandi við báða foreldra sína þó þeir búi ekki saman, nema það sé ekki talið gott fyrir barnið.  Foreldrum er líka skylt að hafa samband við barn sitt. Það er ekki til neitt sem heitir „venjuleg“ eða „meðal“ umgengni. Það þarf alltaf að ákveða umgengni út frá því sem er talið best fyrir hvert og eitt barn. Algengt er að börn fari til umgengnisforeldris síns aðra hvora helgi. Þó eru dæmi um að börn gisti ekki hjá umgengnisforeldri sínu heldur hitti það bara á daginn. Svo eru sumir foreldrar sem vilja að börnin búi hjá sér sitt hvora vikuna. Það er mikilvægt að það sé hægt að breyta umgengni því þarfir barna geta breyst eftir aðstæðum og aldri. 

Þegar umgengni er ákveðin á að hlusta á barnið og það á rétt á því að hafa mikil áhrif á það hvenær, hvernig og hversu oft það á samskipti við það foreldri sem það býr ekki hjá. Eftir því sem börn verða eldri eiga þau að hafa meiri áhrif. Unglingar eiga t.d. að ráða mestu um umgengni. 

Að búa jafnt á tveimur heimilum

Sum börn búa í raun á tveimur heimilum, þó þau eigi bara eitt lögheimili. Börn geta til dæmis verið í svokölluðu viku og viku fyrirkomulagi, þar sem þau búa til skiptis hjá foreldrum sínum. Það getur hentað vel, sérstaklega ef foreldrar eru í góðu sambandi, búa nálægt hvort öðru og barninu líður jafn vel á báðum heimilum. Svona fyrirkomulag hentar hins vegar ekki öllum börnum og er því mikilvægt að börn segi foreldrum sínum hvað þau vilja.  

Foreldrar eiga að hlusta á börnin

Foreldrum ber að hafa samráð við börn á öllum aldri áður en tekin er ákvörðun um forsjá, búsetu eða umgengni. Eftir því sem barn verður eldra og þroskaðra á afstaða þess fá aukið vægi. Þannig má segja að unglingar eigi að fá að ráða mestu um það hjá hvoru foreldrinu þeir búa og hversu mikil umgengnin við hitt foreldrið er. Börn sem eru ekki sátt við það hvar þau búa eða hvernig umgengnin er mega alltaf tjá sig um það og óska eftir breytingum. Þegar kemur að persónulegum málum á  alltaf að hlusta á börn og reyna að hafa hlutina eins og þau vilja. 

Þegar foreldrar eru ósammála

Börn ættu  ekki að vera sett inn í ósætti foreldra. Foreldrar sem rífast mikið eða eiga mjög erfitt með að tala saman gleyma stundum hversu erfitt það er fyrir börnin að vera þarna mitt á milli þeirra. Börnin elska yfirleitt báða foreldra sína og vilja ekki særa neinn. Börnin eiga ekki heldur að þurfa að taka afstöðu með eða á móti foreldri sínu. Foreldrarnir eiga að bera ábyrgð á velferð barna sinna og öllum stórum ákvörðunum um búsetu og umgengni. En ef barn óskar heldur að búa hjá öðru foreldrinu er best að láta vita af því og ekki hafa áhyggjur af að valda hinu foreldrinu vonbrigðum.

Ef foreldrar barns geta ekki orðið sammála um hvernig barn á að halda sambandi við það foreldri sem það býr ekki hjá ákveða sýslumenn eða dómstólar það. 

Hvað átt þú marga foreldra?

Flestir tala um málefni foreldra eins og það séu alltaf bara annað hvort eitt foreldri eða tveir foreldrar til staðar fyrir barnið. Raunveruleikinn hjá mörgum börnum er hins vegar þannig að foreldrar þeirra eru komnir í ný sambönd eða hafa jafnvel gift sig nýjum maka. Þá eignast börnin stjúpforeldra. Um þá er fjallað á síðunni um ný sambönd foreldra.

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

Samtökin Stjúptengsl eru með sérstaka barnasíðu sem ætluð er til að styðja börn í stjúpfjölskyldum. Smelltu hér til að skoða.

www.6h.is.  Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um heilsu og líðan.

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú ert orðinn 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemendur geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Sálfræðingar starfa við flest alla grunnskóla og hægt er að leita til þeirra. Þá eru margir framhaldsskóla komnir með sálfræðing sem nemar geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan.  Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör um  fjölskyldumál hér.

Hér á barna- og unglingasíðunni eru frekari upplýsingar um fjölskyldumál, svo sem ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og barna.

Miklu ítarlegri upplýsingar og tenglar á lög og reglur um fjölskyldumál er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.