Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Gott að hafa í huga

Enginn á að þurfa að þola ofbeldi eða aðra vanvirðandi meðferð. Börn undir 18 ára aldri eiga rétt á sérstakri vernd gegn ofbeldi. Öll börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi eiga rétt á hjálp til þess að takast á við afleiðingar þess. Þetta á líka við um börn sem hafa orðið vitni af ofbeldi, t.d. heima hjá sér. Börn sem hafa beitt ofbeldi geta líka þurft hjálp til þess að breyta hegðun sinni.

Það er mikilvægt láta vita ef maður sjálfur eða einhver sem maður þekkir hefur orðið fyrir ofbeldi eða beitt ofbeldi. Til dæmis er gott að tala við einhvern fullorðinn sem maður treystir t.d. foreldra, kennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing. Það er líka hægt að hafa samband við barnavernd, til dæmis með því að hringja í neyðarlínuna, 1-1-2. Hér í kaflanum um barnavernd má lesa meira um hlutverk barnaverndar. 

Hvað er ofbeldi?

Það telst ofbeldi þegar einhver meiðir eða niðurlægir aðra manneskju viljandi, t.d. með líkamlegu valdi, hegðun eða orðum. Ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Börn geta líka verið beitt annars konar illri meðferð, svo sem vanrækslu. Hér fyrir neðan eru skilgreiningar á vanrækslu og tegundum ofbeldis.

Vanræksla – Þegar barn fær ekki það sem það þarf til þess að lifa góðu lífi, til dæmis mat, svefn eða umönnun. 

Andlegt ofbeldi – Orð, hegðun eða önnur tjáning sem lætur öðrum líða illa.  Til dæmis getur það verið andlegt ofbeldi að segja ljóta hluti um aðra manneskju eða kalla hana ljótum nöfnum. Það telst líka andlegt ofbeldi að hóta, hræða, ógna eða niðurlægja einhvern með hegðun eða orðum. 

Líkamlegt ofbeldi – Þegar líkamlegt afl er notað til þess að meiða eða niðurlægja einhvern.  Til dæmis er það líkamlegt ofbeldi þegar einhver kýlir, slær, hrindir einhverjum eða notar hluti til þess að meiða hann.

Kynferðislegt ofbeldi – Þegar börn eru fengin til þess að taka þátt í kynferðislegri hegðun eða leik með einhverjum sem hefur meiri völd en þau. Það skiptir ekki máli hvort það sé gert með valdi eða ekki.

Heimilisofbeldi – Ofbeldi sem á sér stað milli fólks sem tengist nánum böndum, til dæmis innan veggja heimilisins. Getur verið ofbeldi milli foreldra eða ofbeldi foreldra gegn barni. Það telst ofbeldi gegn barni þegar það verður vitni af ofbeldi á heimili sínu.  

Einelti – Niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem er stýrt af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi. Sjá nánar hér í kaflanum um einelti.

Börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi

Öll börn eiga rétt á öryggi, vernd og umönnun. Ekkert barn á að þurfa þola ofbeldi. Því miður eru þó of mörg börn sem verða fyrir ofbeldi eða annars konar illri meðferð.

Ofbeldi hefur yfirleitt alltaf neikvæð áhrif á börn. Það er þó mismunandi hvernig börn bregðast við ofbeldi. Algengt er að börn upplifi hræðslu, kvíða, skömm, einmanaleika og varnarleysi. Sum börn verða reið og eru sjálf líklegri til að beita ofbeldi. Það er líka algengt að börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi eigi erfitt með að slaka á, sofa og einbeita sér í skólanum.  

Það er mikilvægt að börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi fái aðstoð til þess að takast á við afleiðingar þess. Þess vegna er mikilvægt að láta einhvern fullorðinn vita ef maður sjálfur eða einhver sem maður þekkir hefur orðið fyrir ofbeldi. 

Börn sem beita ofbeldi

Börn geta beitt ofbeldi með ýmsum hætti. Sum börn eiga erfitt með að stjórna skapi sínu og eru óörugg, en það getur leitt til ofbeldis. Stundum beita börn líka ofbeldi án þess að átta sig á því, til dæmis með því að leggja aðra í einelti. Það er mikilvægt að allir standi saman að því að koma í veg fyrir ofbeldi og láti vita ef þeir verða vitni af slíkri hegðun.  

Börn sem beita ofbeldi eiga rétt á aðstoð til þess að bæta hegðun sína. Það skiptir miklu máli að læra góð samskipti og vita hvernig maður getur tekist á við erfiðar aðstæður án þess að beita ofbeldi. 

Upplýsingar á netinu

Ef þig vantar nánari upplýsingar um ofbeldi vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

landlæknir - Á vef landlæknis má finna upplýsingar um heilbrigð sambönd. 

6h.is - Á vefnum má finna upplýsingar um ofbeldi á heimilum og kynferðisofbeldi. 

leidinafram.is - Á vefnum má finna myndband og upplýsingar fyrir börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi

blattafram.is - Á vefnum má finna upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

faduja.is - Á vefnum má málgast stuttmynd og ýmsan fróðleik  mörkin milli ofbeldis og kynlífs.

stattumedther.is - Á vefnum má nálgast stuttmynd fyrir börn um sjálfsvirðingu, ofbeldi og að setja mörk. 

gegneinelti.is - Á vefnum má finna upplýsingar um fagráð eineltismála.

stigamot.is - Á vefnum má finna góðar upplýsingar um kynferðisofbeldi og starfsemi Stígamóta.

kvennaathvarf.isÁ vefnum má finna góðar upplýsingar um heimilisofbeldi og starfsemi Kvennaathvarfsins.

Aðstoð í boði nálægt þér

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur orðið fyrir ofbeldi eða hefur beitt ofbeldi  er mjög mikilvægt að láta einhvern fullorðinn vita. Það er líka hægt að hafa samband beint við barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi sem barnið á heima í. Barnaverndin á að grípa inn í og aðstoða barnið eins og hægt er.

Barnaverndarnefndir

Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir landsins.

Neyðarlínan 112

Starfsfólk neyðarlínunnar tekur við ábendingum um það þegar börn búa við slæmar aðstæður – hvort sem um er að ræða neyðartilvik eða ekki. Hringdu í síma 1–1–2.

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemendur geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan.  Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér  er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör hér í Spurt og svarað.

Miklu nákvæmari texti og meiri upplýsingar um ofbeldi er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.