English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Ný sambönd foreldra

Fjoelskylda Ad Borda

Gott að hafa í huga

Stór hluti einstæðra og fráskilinna foreldra eignast nýjan maka innan fárra ára frá skilnaði eða sambandsslitum. Þá eignast börnin stjúpforeldri en það getur haft ýmsar flækjur í för með sér. Börnin eignast þá kannski líka stjúpsystkini, hálfsystkini, nýjar „frænkur", „frænda", „ömmur" og „afa". Stundum minnka tengslin við ættingja sem áður voru daglegir gestir.

Það getur verið erfitt og óþægilegt fyrir alla í fjölskyldunni þegar kemur að því að foreldrar hefja ný sambönd. Samband barns við kynforeldrið breytist en einnig hlutverk barnsins í fjölskyldunni. Stundum flækir þetta líka umgengni barnsins við kynforeldrið sem það býr ekki með.

Það er eðlilegt að börnum líki ekki vel við stjúpforeldrið í fyrstu en nauðsynlegt er að gefa öllum tækifæri til að kynnast og venjast. Stjúpforeldri sem þekkir ekki stjúpbarn sitt er eðlilega óöruggt í fyrstu þótt það sé allt af vilja gert til að eiga góð samskipti við barnið. Þetta tekur allt tíma. Flestir stjúpforeldrar ætla sér ekki að koma í stað kynforeldra.

Mikilvægast er að tala um það hvernig manni líður, bæði við sitt eigið foreldri og líka við stjúpforeldrið. Fullorðna fólkið ber samt ábyrgðina á því að þetta gangi allt saman upp.

Vandamál milli maka, fyrrverandi og núverandi eru ekki börnunum að kenna. Þeir fullorðnu verða að leysa málin sín á milli og vissulega ber þeim að hafa velferð barns/barna sinna í fyrsta sæti í þessu ferli.

Það er því mikilvægt að allir í fjölskyldunni reyni að vinna saman og vera kurteisir og tillitssamir til að svona stór breyting gangi vel fyrir sig.

Réttindi barna þegar foreldrar hefja nýja sambúð

Börn eiga rétt á upplýsingum um mál sem varða þau persónulega. Stofnun stjúpfjölskyldu hefur djúpstæð áhrif á börn og því er best að þau þurfi ekki að upplifa mikla óvissu um framtíðina. Barn sem er orðinn hluti af stjúpfjölskyldu getur t.d. beðið foreldra sína að setjast niður með sér til að ræða um þá ákvörðun sem búið er að taka. 

Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en tekin er ákvörðun um forsjá, búsetu eða umgengni. Eftir því sem barn verður eldra og þroskaðra á afstaða þess fá aukið vægi. 

Barn á rétt til umgengni við kynforeldri sitt sem það býr ekki með nema slík umgengni teljist andstæð hag barns og þörfum. Ef foreldrar barns geta ekki orðið sammála um hvort þeirra skuli hafa forsjá barns eða hvernig barn á að halda sambandi við það foreldri sem það býr ekki hjá ákveða sýslumenn eða dómstólar það. 

Ef foreldri sem fer eitt með forsjá barns síns er gift eða í hefur verið í sambúð með öðrum en hinu foreldrinu í meira en eitt ár, geta foreldri og stjúpforeldri samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Sýslumaður þarf að staðfesta þannig samning eftir að það er búið að fá álit frá hinu kynforeldrinu.

Þó að stjúpforeldrar fari yfirleitt ekki með forsjá stjúpbarna sinna bera þeir samt mikla ábyrgð á þeim. Stjúpforeldrar eiga að sjálfsögðu að koma fram við stjúpbörn sín af virðingu og sýna þeim umhyggju og tillitssemi. 

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

Samtökin Stjúptengsl eru með sérstaka barnasíðu sem ætluð er til að styðja börn í stjúpfjölskyldum. Smelltu hér til að skoða.

www.6h.is.  Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um heilsu og líðan.

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú ert orðinn 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemendur geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör um  fjölskyldumál hér.

Hér á barna- og unglingasíðunni eru frekari upplýsingar um fjölskyldumál, svo sem ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og barna.

Miklu ítarlegri upplýsingar og tenglar á lög og reglur um fjölskyldumál er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.