English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Heilsa og líðan

Laeknir

Gott að hafa í huga

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna til 18 ára aldurs og þeim ber að sjá til þess að börn þeirra búi almennt við góð skilyrði. Hluti af forsjárskyldum foreldra er að sinna líkamlegum þörfum barna sinna og gæta þess að umhverfi þeirra sé eins öruggt og hægt er. Aðrir í samfélaginu, sérstaklega þeir sem bera ábyrgð á börnum, bera ríkar skyldur til að vernda þau gegn skaðlegum áhrifum umhverfisins, s.s. ofbeldi, hávaða, sólarljósi, kulda, tóbaksreyk, smitsjúkdómum og slysum. 

Foreldrum ber að sjá til þess að barn fari til læknis eða fái aðra heilbrigðisþjónustu þegar það þarf. Andleg vanlíðan getur haft líkamleg einkenni og því er mikilvægt að hugað sé að aðstæðum barna í sínu nánasta umhverfi, hugsanlegum áföllum eða áhyggjum þeirra þegar börn kvarta t.d. yfir verkjum sem erfitt er að útskýra. Oft er nauðsynlegt að fá ráðgjöf eða meðferð hjá sálfræðingum eða geðlæknum til að hjálpa börnum sem búa við erfiðar aðstæður eða hafa orðið fyrir áföllum.

Heilsugæsla er yfirleitt fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Oftast tilheyrir fólk þeirri heilsugæslustöð sem næst er heimilinu og er þar skráð hjá heimilislækni. Börn eru skráð með foreldrum sínum en við 16 ára aldur verða börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Það þýðir að þeir sem eru orðnir 16 ára eiga sjálfstæðan rétt til að fá upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki og samþykkja eða hafna læknismeðferð. Þau geta því farið ein á heilsugæslustöðina og fengið þjónustu. Það þarf ekki að borga komugjöld á heilsugæslustöðvum fyrr en við 18 ára aldur.

Skólahjúkrunarfræðingurinn

Í grunnskólanum er veitt fyrsta hjálp og minniháttar slysum sinnt. Skólahjúkrunarfræðingar eru yfirleitt með fastan viðverutíma í grunnskólum en stundum starfa þeir einnig á heilsugæslustöðvum nálægt skólanum. Nemendur geta leitað til skólahjúkrunarfræðingsins með ýmis mál varðandi heilsu og líðan. Skólahjúkrunarfræðingurinn getur t.d. aðstoðað nemendur með mál sem varða vanlíðan, verki, næringu, útlit, húðvandamál, kynheilbrigði og getnaðarvarnir. Ef nemendur hafa áhyggjur af geðheilbrigði sínu er gott að byrja á því að ræða líðanina við hjúkrunarfræðinginn í trúnaði.

Skólaheilsugæslan sinnir reglubundnum skoðunum, svo sem sjónprófum, hæðar- og þyngdarmælingum, og bólusetningum. Bólusetningar barna eru á ábyrgð foreldra fram að 16 ára aldri. Þegar ákvarðanir eru teknar um bólusetningar er það skylda foreldra að hlusta á og virða sjónarmið barna sinna. Frá 16 ára aldri ráða börn sjálf hvort þau láta bólusetja sig.

Það er ekki skólahjúkrunarfræðingur í leikskólum og framhaldsskólum en framhaldsskólar eiga að gera samninga við heilsugæsluna um þjónustu.

16 ára og sjálfstæð

Frá 16 ára aldri eru börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins eins og segir hér að ofan. Þeir sem eru orðnir 16 ára eiga því sjálfstæðan rétt til að fara til læknis eða hjúkrunarfræðings og fá upplýsingar, samþykkja eða hafna læknismeðferð.

Samráð við börn

Foreldrar sem fara með forsjá barns þurfa að veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Samt á alltaf að gæta þess að börn sem eru yngri séu höfð með í ráðum ef það er hægt og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. 

Sjálfstæður réttur óháður foreldrum

Börn á öllum aldri eiga sjálfstæðan rétt til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna. Börn eiga því rétt til heilsufarsráðgjafar og aðstoðar í trúnaði án samþykkis foreldra, óháð aldri barns, þegar þörf er á vegna öryggis eða velferðar barns. Börn geta haft þörf á svoleiðis ráðgjöf, t.d. þegar þau hafa reynslu af ofbeldi eða vanrækslu á heimili sínu, hafa þörf á ráðgjöf um getnaðarvarnir eða þegar börn og foreldrar eru ekki sammála um hvort barn eigi að fara til læknis. Rétturinn til ráðgjafar og aðstoðar ætti ekki að vera takmarkaður með aldursmörkum.

Réttur til trúnaðar

Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu á að gæta trúnaðar um allt það sem það kemst að í starfi sínu um persónuleg mál barna. Þetta ákvæði á að sjálfsögðu við um börn þó að foreldrum barna yngri en 16 ára skuli veittar allar nauðsynlegar upplýsingar um heilsufar barns. Verði starfsmaður var við að barn hafi verið vanrækt eða beitt ofbeldi heima hjá sér verður hann samt að láta barnaverndina vita.

Börn á spítala

Skylt er að gera allt sem hægt er til að veik börn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þeirra leyfir. Það á að hlífa börnum við ónauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum. Sjúk börn, sem dveljast á heilbrigðisstofnunum, eiga rétt á að hafa foreldra eða aðra sem þeim þykir vænt um hjá sér. Systkini og vinir mega líka heimsækja barn sem dvelst á spítala ef það er hægt. Veik börn á skólaskyldualdri eiga að fá kennslu sem hæfir aldri þeirra og ástandi. Umhverfi og aðbúnaður veikra barna á heilbrigðisstofnunum skal hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi. Þetta segir í lögum um réttindi sjúklinga.

Algengar spurningar

Má ég fá mér tattú eða lokk?
Það er óheimilt að flúra, húðgata eða beita nálastungu á börn nema með skriflegu leyfi foreldra eða annarra sem fara með forsjá barns. Tattústofur eiga að biðja viðskiptavini um að framvísa skilríkjum ef vafi leikur á um aldur.

Foreldrum er almennt ekki heimilt að flúra eða húðgata börn sín án þeirra samþykkis. Í framkvæmd virðist þó hafa tíðkast að foreldrar láti húðgata eyru barna þegar þau eru ung. Húðgötun í eyru telst ekki eins varanleg aðgerð og t.d. húðflúrun þar sem það tekur tiltölulega skamman tíma að gróa fyrir. Umboðsmaður barna telur þó að foreldrar ættu að forðast slíkt inngrip á börnum sem hafa ekki náð aldri eða þroska til þess að skilja og samþykkja slíkar aðgerðir. Eðlilegast er að slíkar aðgerðir séu ekki framkvæmdar nema að frumkvæði barna og er það þá foreldranna að meta hvort þeir leyfi slíkt. Við matið ber að taka tillit til vilja barns í samræmi við aldur og þroska. Húðgötun annars staðar á líkamanum og húðflúrun felur í sér töluvert meira og jafnvel varanlegra inngrip í líkama barna, auk þess sem slíkum aðgerðum fylgir oft meiri sársauki. Þar af leiðandi er foreldrum ekki heimilt að samþykkja slíkt inngrip á ungum börnum. Jafnframt þurfa foreldrar að fara varlega í að samþykkja slíkar aðgerðir á eldri börnum og tryggja að þau hafi náð nægilegum aldri og þroska til þess að skilja þýðingu þeirra.

Má ég fara einn til sálfræðings?
Þeir sem eru orðnir 16 ára mega fara sjálfir til sálfræðings eða fá tíma á heilsugæslustöð. Þeir sem eru yngri ættu líka að geta leitað ráðgjafar og aðstoðar hjá sálfræðingum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki án þess að foreldrar komi þar að.

Eins og að framan greinir geta börn sjálf tekið ákvörðun um læknismeðferð frá 16 ára aldri. Er því ljóst að börn geta að minnsta kosti leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi án samþykkis foreldra þegar þau hafa náð þeim aldri, enda felur sálfræðiþjónusta í sér minna inngrip og áhættu en flestar læknismeðferðir. Umboðsmaður barna telur þó að sálfræðiþjónusta falli almennt ekki undir 26. gr. laga um réttindi sjúklinga þar sem ólíklegt er að hún teljist nauðsynleg meðferð í skilningi laganna. Sálfræðimeðferð eða viðtöl við sambærilegt fagfólk, svo sem félagsráðgjafa, geta þó skipt sköpum fyrir barn og líðan þess. Telur umboðsmaður því að börn undir 16 ára aldri ættu að geta leitað til sálfræðings án samþykkis foreldra. Þegar börn leita til sálfræðinga þurfa þeir þó að sjálfsögðu að meta hvort ástæða sé til að hafa samband við barnavernd, en þeir sem fagmenn bera sérstaka tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum.

Það eru reyndar ekki allir sammála þessu og telja sumir að börn megi ekki leita til heilbrigðisstarfsfólks eins og sálfræðinga nema með leyfi foreldra. Það er ekki í samræmi við réttindi barna. Umboðsmaður vill gjarnan fá að vita ef börnum er neitað um að fá að tala við sálfræðing eða aðra starfsmenn heilsugæslunnar í trúnaði.

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

www.6h.is.  Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um heilsu og líðan.

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú ert orðinn 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör um heilsu og líðan hér.

Miklu nákvæmari texti og meiri upplýsingar um heilsu og líðan er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.