English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Einelti

Hlutverkumbodsmanns 1Gott að hafa í huga

Því miður er einelti algengt í skólum, hvort sem þeir eru litlir eða stórir. Börn geta líka orðið fyrir einelti í frístundastarfi, á vinnustöðum, á netinu og fleiri stöðum. Það getur verið erfitt að takast á við einelti á netinu þegar þeir sem leggja í einelti gera það nafnlaust. Mikilvægt er að allir viti hvað einelti er og hversu vont það er fyrir barn að verða fyrir því. Það þurfa allir að standi saman að því að því að vera á móti einelti og hjálpa þeim fullorðnu sem bera ábyrgð í baráttunni gegn því. 

Hvað er einelti?

Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi. Einstaklingur er tekinn fyrir með stríðni, niðrandi ummælum, sögusögnum, hótunum, höfnun frá vinum og bekkjarfélögum og er skilin útundan.

Stundum leggur fólk einhvern í einelti án þess að vita það. Það heldur kannski að það sé bara að stríða en áttar sig ekki á því hversu erfitt það er að verða sífellt fyrir stríðni. Þeir sem leggja í einelti gera það af ýmsum ástæðum sem hægt er að skoða betur hér á vefnum kolbrunbaldurs.is

Sá sem verður fyrir eineltinu er kallaður þolandi og sá eða þeir sem beita eineltinu eru kallaðir gerendur.

Einkenni þolenda eineltis

Sá sem lagður er í einelti líður illa. Hann verður einmana, hræddur og öryggislaus. Sá sem verður fyrir einelti segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um og finnst eitthvað vera að sér. Mikilvægt er að allir þekki einkenni eineltis. Það gæti verið að barn sé lagt í einelti ef það ....

 •  ... vill ekki fara í skólann eða er hrætt um að ganga eitt í og úr skóla,
 •  ... fer heim í öllum hléum í skólanum,
 •   ... gengur ekki eins vel í skólanum eins og áður,
 •   ... leikur sér ekki við önnur börn,
 •   ... vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum,
 •  ... byrjar að stama,
 •  ... missir sjálfstraustið og neitar að segja frá hvað amar að.

Ef þú kannast við þetta sjálf(ur),  hjá vini þínum eða einhverjum sem þú þekkir er mikilvægt að láta foreldra eða aðra fullorðna vita.

Hvað á maður að gera?

Ef þú heldur að þú sért lagður eða lögð í einelti þá áttu ekki að þurfa að þola það lengur. Láttu vita. Yfirleitt er best að láta foreldra sína vita fyrst. Þeir eiga að hjálpa þér. 

Allir skólar eiga að hafa áætlun um hvað skuli gera ef upp kemur um einelti og því er mikilvægt að láta starfsfólk skólans vita ef þig grunar að verið sé að leggja þig í einelti eða ef  einhver annar sé lagður í einelti.  Best er að byrja á því að tala við umsjónarkennara eða aðra sem þið treystið í skólanum. Kannski þurfa fleiri að koma að málinu í skólanum, t.d. námsráðgjafinn og fleiri kennarar. Ef það er búið að hafa oft samband við  skólann vegna eineltis og ástandið batnar ekki geta foreldrar leitað til fagráðs um einelti.

Ef þú upplifir einelti í íþróttum eða öðru frístunda- og menningarstarfi þá þarf að láta þjálfara, leiðbeinanda  eða aðra umsjónarmenn vita. Ef þú ert í vinnu og upplifir einelti þar þá er mikilvægt að láta yfirmann eða aðra stjórnendur vita.

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessari síðu:

 

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú ert orðin 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Erindi.is. Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunar og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum. 

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

 • Grunnskólanemendur geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
 • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
 • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
 • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
 • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
 • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér  er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
 • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör hér í Spurt og svarað.

Miklu nákvæmari texti og meiri upplýsingar um vinnu er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.

 

Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.