English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Barnavernd

Gott að hafa í huga

Öll börn eiga rétt á að búa við öryggi og líða vel heima hjá sér. Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs og eiga að sjá til þess að börn þeirra búi við góð skilyrði og hafi það sem þau þurfa til þess að lifa góðu lífi. Foreldrar eiga einnig að sýna börnum sínum umhyggju og virðingu og reyna eins og þeir geta að vernda þau gegn ofbeldi. Því miður eru ekki allir foreldrar sem geta sinnt þessu hlutverki sínu nógu vel. Það er hlutverk barnaverndar að grípa inn í ef börn búa ekki við nógu góðar aðstæður og veita börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynlegan stuðning.

Barnaverndin á líka að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra þegar börn eru sjálf að stefna heilsu sinni eða þroska í hættu. Það getur til dæmis átt við þegar börn eru byrjuð að nota vímuefni, hegða sér oft mjög illa heima eða í skólanum, fremja afbrot eða sýna af sér aðra áhættuhegðun.

Barnaverndin á fyrst og fremst að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra. Í flestum málum sem barnavernd vinnur að er reynt að vinna með fjölskyldum til þess að finna einhverja leið til þess að bæta stöðu barns. Þegar foreldrar hafa brotið alvarlega gegn barni, til dæmis með því að beita það ofbeldi, getur barnaverndin þó stundum þurft að taka barnið af heimili sínu. Það er bara gert ef það er talið hættulegt fyrir barn að búa hjá foreldrum sínum.

Hvað gerir barnavernd?

Barnaverndin á að sjá til þess að börn sem búa við slæmar aðstæður eða stefna sjálfum sér í hættu fái þá aðstoð sem þau þurfa. Þegar barnavernd fær upplýsingar um að aðstæður barns séu ekki nógu góðar á hún að byrja á því að kanna málið. Barnaverndin byrjar yfirleitt á því að reyna veita börnum og fjölskyldum stuðning, til dæmis ráðgjöf og fræðslu. Stundum getur til dæmis verið að aðstoð fagaðila geti hjálpað börnum til að líða betur eða hjálpað foreldrum að ráða betur við uppeldið. Barnaverndin getur líka unnið með leikskólum, skólum eða öðrum aðilum, til dæmis ef barn þarf sérstakan stuðning.

Ef ráðgjöf og stuðningur duga ekki til þess að tryggja að barni fari að líða vel eða ef aðstæður eru þannig að þær eru beinlínis hættulegar fyrir getur barnavernd ákveðið að það sé best fyrir barn að búa annars staðar en hjá foreldrum sínum, annaðhvort tímabundið eða til lengri tíma. Til dæmis gæti barn þá farið í fóstur hjá ættingjum eða hjá óskyldum fósturforeldrum. Börn geta líka dvalið tímabundið á heimilum sem eru rekin af barnaverndinni, til dæmis meðferðarheimilum. Yfirleitt er talið best fyrir börn að búa með foreldrum sínum og er þetta því aðeins ákveðið ef það er talið nauðsynlegt og barni fyrir bestu. Getur það til dæmis átt við ef barn er beitt ofbeldi á heimili sínu eða ef foreldrar eru í mikilli neyslu og neita að þiggja þá aðstoð sem þeir þurfa til þess að geta hugsað um börn sín. Þetta getur líka átt við ef unglingar eru í neyslu eða eru með mikinn hegðunarvanda og það er talið nauðsynlegt fyrir þá að fá aðstoð utan heimilis.

Barnaverndarnefnd og starfsmenn hennar eiga alltaf að taka þær ákvarðanir sem eru taldar börnum fyrir bestu og sýna þeim sérstaka nærgætni og trúnað. Börn eiga að geta treyst barnaverndinni og leitað til hennar ef þeim líður illa heima hjá sér eða þurfa á aðstoð að halda.

Vilji barns

Börn eiga alltaf rétt á að tjá sig um mál sem varða þau sjálf og er barnaverndinni skylt að hlusta á börn og taka tillit til skoðana þeirra, í samræmi við aldur og þroska. Barnaverndin á líka alltaf að meta það hvort það sé ástæða til að skipa barni sérstakan talsmann, en hann á að aðstoða barnið og hjálpa því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þegar barnaverndin sér fram á að taka ákvörðun um að taka barn af heimili sínu á yfirleitt alltaf að skipa barni talsmann.

Þegar börn verða 15 ára verða þau sjálfstæðir aðilar í barnaverndarmálum þegar til greina kemur að vista börn utan heimilis, til dæmis þegar börn fara í fóstur eða dvelja tímabundið á meðferðarheimili. Það þýðir að börn þurfa yfirleitt sjálf að samþykkja slíkar ákvarðanir frá 15 ára aldri. Þau eiga líka rétt á því að fá lögmann til að aðstoða sig í málinu. Stundum er þó hægt að ákveða að það eigi að vista barn á aldrinum 15 til 18 ára utan heimilis, án samþykkis. Það er bara gert ef það er talið algjörlega nauðsynlegt til þess að vernda barnið.

Eftir því sem börn eldast og þroskast eiga þau að hafa meira að segja um eigið líf. Stálpuð börn og unglingar eiga því að hafa mikið með það að segja hvaða ákvarðanir barnaverndin tekur til þess að hjálpa börnum.

Tilkynning til barnaverndar

Til þess að barnavernd geti hjálpað þeim börnum sem búa ekki við nógu góðar aðstæður eða eru að sýna af sér hættulega hegðun þarf einhver að hafa samband við hana og segja frá því hver staðan er.

Í barnaverndarlögum kemur fram að öllum sé skylt að hafa samband við barnaverndarnefnd ef þeir vita að það sé verið að koma illa fram við barn eða aðstæður á heimili barns séu þannig að þær geti verið hættulegar fyrir barnið. Þessi skylda hvílir á okkur öllum. Þeir sem vinna með börnum eru svo með sérstaklega ríkar skyldur til þess að láta barnaverndina vita ef ástæða er til að hafa áhyggjur af barni. Þetta á til dæmis við um kennara, lækna, hjúkrunarfræðinga, þjálfara, presta, félagsráðgjafa og fleiri. Skylda þessara aðila til þess að hafa samband við barnavernd gengur framar trúnaðarskyldu þeirra gagnvart börnum. Þó að börn eigi rétt á því að tala við þessa aðila í trúnaði þurfa þessir aðilar alltaf að hafa samband við barnavernd ef ástæða er til að halda að aðstæður barns séu þannig að þær séu hættulegar fyrir barnið.

Þegar börnum líður illa heima hjá sér eða þurfa af öðrum ástæðum að frá hjálp frá barnaverndinni geta þau sjálf haft samband við barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi sem þau eiga heima í. Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir landsins. Svo er líka hægt að hringja í 112 en starfsmaður Neyðarlínunnar á að koma málinu áfram til réttra aðila. Börn geta líka talað við einhvern fullorðinn sem þau treysta, til dæmis ættingja, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing eða umsjónarkennara. Þessir aðilar geta hjálpað börnum að hafa samband við barnaverndina. Það er líka hægt að hafa samband við umboðsmann barna og biðja um aðstoð.

Hvenær er rétt að láta barnavernd vita?

Það á alltaf að hafa samband við barnavernd ef maður hefur ástæðu til að halda að barn búi ekki við nógu góðar aðstæður eða ef barn er að stefna sjálfu sér í hættu.

Dæmi um aðstæður sem ástæða gæti verið að tilkynna um:

 • Barn er líkamlega eða andlega vanrækt þ.e. þörfum þess er ekki sinnt, það fær ekki nóg að borða, er í skítugum eða ónýtum fötum, það er ekki farið með það til læknis o.s.frv.
 • Barn verður fyrir líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi, þar á meðal ef barn verður vitni af ofbeldi á heimili sínu. 
 • Ungt barn er skilið eftir eitt heima eða í umsjá annarra barna eða hættulegra einstaklinga.
 • Barn er skilið eftir eitt heima í langan tíma og þurfa að sjá um sig alveg sjálft.
 • Barn verður oft fyrir slysum eða öðrum skaða sem hefðu verið hægt að koma í veg fyrir.
 • Barn er oft með áverka sem erfitt er að útskýra.
 • Vímuefnaneysla eða önnur vandamál foreldra.
 • Barn mætir illa í skólann.
 • Barn stefnir sjálfu sér í hættum, til dæmis með áfengis- og vímuefnaneyslu eða annars konar áhættuhegðun.
 • Barn beitir aðra ofbeldi, fremur skemmdarverk eða önnur afbrot.
 • Barn er með þunglyndi, kvíða eða á við annan geðrænan vanda að stríða og virðist ekki vera að fá nauðsynlegan stuðning.

Þetta er alls ekki tæmandi listi. Ef maður er ekki viss hvort það sé ástæða til að tilkynna um aðstæður barns er best að hafa samband við barnaverndina beint og fá ráð. Yfirleitt er betra að tilkynna en að tilkynna ekki. Einstaklingar sem tilkynna til barnaverndar geta óskað eftir nafnleynd.

Erfiðustu málin

Barnaverndin á fyrst og fremst að vinna með fjölskyldum og aðstoða þær til þess að bæta aðstöðu barna. Er því yfirleitt reynt að taka ákvarðanir með samþykki foreldra og barna sem hafa náð 15 ára aldri. Þegar aðstæður barna eru mjög slæmar getur barnaverndin þó stundum þurft að taka ákvarðanir, án samþykkis. Barnavernd getur ákveðið að barn eigi að vera vistað utan heimilis í allt að 2 mánuði, án samþykkis, ef það er talið nauðsynlegt til að vernda barnið. Til dæmis getur barnavernd ákveðið að barn skuli fara í fóstur í þennan tíma eða að það skuli fara á meðferðarheimili.

Það er hægt að kæra þær ákvarðanir sem barnavernd tekur án samþykkis til sérstakrar kærunefndar. Ef barnavernd telur nauðsynlegt að barn sé lengur utan heimilis þarf að fara með málið fyrir dóm og fá úrskurð frá dómara. Í mjög alvarlegum málum getur niðurstaðan verði sú að foreldrar eru sviptir forsjá barna sinna. Ef það er gert er fundið annað heimili fyrir barn hjá fósturforeldrum.

Barn sem er í fóstri á rétt á því að umgangast foreldra sína og aðra nákomna, ef það er talið í samræmi við hagsmuni þess. Barn sem er orðið 15 ára getur sjálft gert kröfu um slíka umgengni. Barn sem býr hjá fósturforeldrum á líka alltaf rétt á upplýsingum um það hvers vegna það er í fóstri og hvaða áform barnavernd hefur um framtíða þess, í samræmi við aldur og þroska.

Aðstoð í boði nálægt þér

Ef þú eða einhver sem þú þekkir líður illa heima hjá sér eða er farinn að neyta vímuefna, fremja afbrot eða sýna af sér aðra hættulega hegðun er mjög mikilvægt að láta einhvern fullorðinn vita. Það er líka hægt að hafa samband beint við barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi sem barnið á heima í. Barnaverndin á að grípa inn í og aðstoða barnið eins og hægt er.

Barnaverndarnefndir

Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir landsins.

Neyðarlínan 112

Starfsfólk neyðarlínunnar tekur við ábendingum um það þegar börn búa við slæmar aðstæður – hvort sem um er að ræða neyðartilvik eða ekki. Hringdu í síma 1–1–2.

Barnaverndarstofa

Barnaverndarstofa á að fylgjast með því að barnaverndarnefndir séu að sinna hlutverki sínu vel. Hún veitir líka ráðgjöf um barnaverndarmál. Það er hægt að hringja í síma 530-2600 eða senda fyrirspurnir hér á netinu

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

 • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
 • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
 • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
 • Sálfræðingar starfa við flest alla grunnskóla og hægt er að leita til þeirra. Þá eru margir framhaldsskóla komnir með sálfræðing sem nemar geta leitað til. 
 • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
 • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
 • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
 • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör hér.

Miklu ítarlegri upplýsingar og tenglar á lög og reglur um barnavernd má finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.