English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Afbrot

Gott að hafa í huga

Í samfélaginu gilda ákveðin lög og reglur sem allir þurfa að fylgja – bæði börn og fullorðnir. Til dæmis gilda ákveðin refsilög, sem segja til um það hvaða hegðun telst vera afbrot. Það telst til dæmis afbrot að beita einhvern ofbeldi, stela einhverju eða skemma eitthvað sem aðrir eiga. Það er yfirleitt hægt að refsa fólki fyrir slíka hegðun, til dæmis með því að láta það borga sekt eða dæma það í fangelsi.

Eftir því sem börn eldast og þroskast fá þau aukinn réttindi til þess að ráða eigin lífi sjálf og á sama tíma þurfa þau smám saman að bera aukna ábyrgð á eigin hegðun. Ríkið á ekki að refsa börnum undir 15 ára aldri ef þau brjóta af sér. Frá 15 ára aldri teljast börn hins vegar sakhæf – sem þýðir að það er hægt að refsa þeim fyrir afbrot.

Afbrot geta haft áhrif á líf barna með ýmsum hætti. Til dæmis geta börn sjálf brotið af sér, það getur verið brotið gegn börnum og svo geta börn orðið vitni af afbrotum. Sum börn eiga líka foreldra sem hafa brotið af sér og eru í fangelsi.

Afbrot barna yngri en 15 ára

Börn sem eru yngri en 15 ára eru ósakhæf, en það þýðir að dómstólar geta ekki ákveðið að refsa þeim þó að þau brjóti af sér. Það þýðir samt ekki að það hafi engar afleiðingar þegar börn yngri en 15 ára brjóta af sér. Það er hlutverk barnaverndar og foreldra að bregðast við afbrotum barna á þessum aldri. Stundum gæti til dæmis verið ákveðið að barn þurfi að fara á meðferðarheimili eða annað úrræði á vegum barnaverndar. Það er mikilvægt að börn átti sig á alvarleika og afleiðingum brota sinna.

Stundum kemur lögreglan að því að rannsaka brot barna, þó þau séu ósakhæf. Hlutverk lögreglu er þá aðallega að komast að því hvað gerðist, hverjir brutu af sér og gegn hverjum var brotið. Lögreglan á líka að aðstoða börnin og fjölskyldur þeirra. Lögreglan á alltaf að láta barnavernd vita þegar barn hefur framið alvarlegt brot. 

Afbrot barna 15 til 18 ára

Þegar börn verða 15 ára verða þau sakhæf samkvæmt íslenskum lögum. Það þýðir að börn eru frá 15 ára aldri talin bera ábyrgð á brotum sínum og ríkið getur refsað þeim fyrir þau. Refsingar geta verið sektir, skilorðsbundið fangelsi eða fangelsi. 

Þó að sömu reglur gildi að sumu leyti um börn á aldrinum 15 til 18 ára sem brjóta af sér og fullorðna, gilda þó líka sérstakar reglur um börn. Það á ekki að taka eins hart á brotum þeirra eins og brotum fullorðinna.

Þegar sakhæft barn fremur afbrot rannsakar lögreglan almennt brotið og ákveður hvernig eigi að bregðast við. Lögreglan á því að láta barnavernd vita þegar barn á aldrinum 15 til 18 ára fremur alvarlegt brot, þ.e. brot á almennum hegningarlögum eða brot á öðrum lögum sem getur varðað þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi. Barnavernd hefur síðan samband við foreldrana.

Þegar börn brjóta af sér

Viðbrögð við afbrotum barna eiga fyrst og fremst að vera þannig að þau hafi jákvæð og uppbyggileg áhrif og miði að því að styrkja sjálfsmynd þeirra. Á því yfirleitt að reyna að taka á afbrotum barna án þess að fara með málið fyrir dómstól. Það á aldrei að dæma barn í fangelsi nema það sé alveg öruggt að önnur úrræði myndu ekki duga til að tryggja öryggi barnsins eða annarra eða ef barn er búið að brjóta oft að sér og það er búið að reyna allt annað.

Handtaka

Það má ekki svipta börn frelsi sínu, til dæmis með því að handtaka þau, nema það sé talið nauðsynlegt. Yfirleitt er ekki heimilt að handtaka börn undir 15 ára aldri en það má þó fara með þau á lögreglustöð án samþykkis ef það er nauðsynlegt til að rannsaka brot. Þegar barn er handtekið á að hafa samband við foreldra þess og barnavernd og hvetja þá til þess að koma á lögreglustöðina eins fljótt og hægt er.

Yfirheyrsla

Börn sem hafa brotið af sér geta þurft að fara í skýrslutöku hjá lögreglunni. Ef lögregla ætlar að yfirheyra barn undir 15 ára aldri á hún fyrst að láta barnaverndina og foreldra barnsins vita. Barnaverndin getur þá sent einhvern til að aðstoða barnið. Foreldrar eiga líka að geta verið á staðnum þegar lögreglan ræðir við barnið, nema það sé ekki talið gott fyrir barnið eða það er talið geta skaðað rannsókn málsins. 

Þegar lögregla ætlar að taka skýrslu af barni á aldrinum 15 til 18 ára getur lögregla líka haft samband við barnavernd og foreldra ef það þykir betra fyrir barnið. Lögreglan á alltaf að hafa samband við barnavernd ef barn er grunað um brot gegn almennum hegningarlögum t.d. ofbeldi eða skemmdarverk, eða alvarlegt brot gegn öðrum lögum, t.d. vímuefnabrot. 

Gæsluvarðhald

Það má ekki láta börn yngri en 15 ára vera í fangageymslu eða úrskurða þau í gæsluvarðhald. Þegar barn sem er orðið 15 ára eða eldra er grunað um alvarlegt brot er hins vegar hægt að úrskurða það í gæsluvarðhald. Með því er átt við að dómari ákveður að barn eigi að vera svipt frelsi sínu á meðan verið er að rannsaka málið. Það má þó ekki úrskurða barn á aldrinum 15 til 18 ára í gæsluvarðhald nema ljóst er að það sé talið nauðsynlegt og að önnur úrræði komi ekki til greina. Dæmi um önnur úrræði sem gætu komið til greina er vistun barns á meðferðarheimili á vegum barnaverndar.

Leit

Það má yfirleitt ekki leita á börnum, nema þau samþykki það sjálf. Þegar það er sterkur grunur fyrir því að barn hafi framið afbrot hefur lögreglan þó heimild til þess að leita á þeim, en bara ef það er talið nauðsynlegt fyrir rannsókn málsins. Lögreglan má líka leita á ósakhæfum börnum ef það er talið mikilvægt til að upplýsa mál. Aðrir en lögregla, til dæmis öryggisverðir í búðum eða starfsfólk skóla, mega ekki leita á börnum. 

Viðbrögð án dóms

Það á alltaf að reyna að bregðast við afbrotum sakhæfra barna án þess að fara með mál fyrir dóm. Dæmi um tvö úrræði sem koma til greina án þess að fara með mál fyrir dóm eru skilorðsbundin ákærufrestun og sáttamiðlun.

  • Skilorðsbundin ákærufrestun Máli er frestað gegn því skilyrði að það brjóti ekki af sér aftur í ákveðinn tíma. Stundum eru líka sett önnur skilyrði, t.d. að það fari í meðferð vegna vímuefnavanda eða hitti reglulega fagaðila. Ef barnið stenst þessi skilyrði er málið fellt niður.
  • Sáttamiðlun – Barnið fær tækifæri til að horfast í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og ná sáttum við þann sem brotið var gegn. Barnið og sá sem brotið var gegn, ásamt ýmsum öðrum t.d. lögreglu, barnavernd og foreldrum, ræða málin og reyna að komast að samkomulagi um það hvernig barnið geti bætt fyrir brot sitt.

Dómsmál

Þegar afbrot barns á aldrinum 15 til 18 ára er alvarlegt eða barnið hefur brotið af sér áður gæti þurft að fara í sakamál gegn barninu. Þá er gefin út ákæra og svo er fjallað um málið hjá dómstólum. Dómari getur ákveðið að aðrir megi ekki fylgjast með málinu, til þess að vernda barnið.

Dómari fer yfir málið og ákveður hvort barn hafi í raun brotið af sér eða ekki. Ef niðurstaðan er að barn hafi brotið af sér ákveður dómari refsingu. Þegar refsingin er ákveðin á dómari að taka tillit til aldurs þess sem braut af sér. 

Refsingar

Refsingar í dómsmáli geta verið sekt eða fangelsi. Börn á aldrinum 15 til 18 ára geta þurft að greiða sektir ef þau brjóta af sér, jafnvel þó þau séu ekki fjárráða. Það er líka hægt að dæma börn á þessum aldri í fangelsi. Stundum eru dómar um fangelsi skilorðsbundnir – en það þýðir að sá sem braut af sér er ekki sviptur frelsi sínu svo lengi sem hann brýtur ekki af sér í ákveðinn tíma. Stundum er líku sett önnur skilyrði t.d. að barn neyti ekki áfengis eða annarra vímuefna eða fari í meðferð.

Þegar börn eru dæmd í óskilorðsbundið fangelsi þýðir það að þau verða svipt frelsi sínu. Börn eiga samt ekki að fara í fangelsi með fullorðnum föngum, nema það sé talið þeim fyrir bestu. Er því almennt gert ráð fyrir að börn afpláni fangelsisrefsingu sína á meðferðarheimilum á vegum barnaverndar.

Hvað þýðir að vera á sakaskrá?

Þegar sakhæf börn á aldrinum 15 til 18 ára hafa verið dæmd fyrir afbrot er það yfirleitt skráð í sakaskrá. Það getur verið slæmt fyrir einstakling að vera á sakaskrá. Sumir vinnustaðir eru t.d þannig að starfsfólk má ekki vera með skráð brot í sakaskrá. Þetta getur líka skipt máli þegar ungmenni sækja um nám, til dæmis í útlöndum. 

Sakaskrá fylgir einstaklingum alla ævina. Sakavottorð tilgreina samt yfirleitt bara brot 3-5 ár aftur í tímann. Það er því mikilvægt að þau börn og ungmenni sem hafa brotið af sér viti að það er hægt að snúa við blaðinu og bæta sig.

Börn sem brotaþolar

Því miður eru mörg dæmi um að afbrot fullorðinna og barna bitni á börnum. Dæmi um slík brot eru ofbeldi gegn börnum, þjófnaður og skemmdarverk á eignum barna. Þegar afbrot beinist beint gegn barni er talað um að barn sé brotaþoli. Börn sem hafa orðið fyrir broti geta þurft að segja frá reynslu sinni hjá lögreglu og svo jafnvel hjá dómstólum.

Þegar barn verður fyrir alvarlegu broti, eins og t.d. ofbeldi, er mikilvægt að láta barnaverndina vita. Barnaverndin á að aðstoða barnið og veita því þann stuðning sem það þarf til að takast á við afleiðingar brotsins. Þegar barn hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á líka að tilnefna því réttargæslumann, sem gætir hagsmuna þess við meðferð máls. Það á líka að skipa réttargæslumann ef barn hefur orðið fyrir annars konar alvarlegu broti, t.d. líkamlegu ofbeldi, ef barn óskar eftir því eða það er talið nauðsynlegt fyrir barnið.

Þegar barn undir 15 ára aldri hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða annars konar alvarlegu ofbeldi þarf það yfirleitt bara að segja frá reynslu sinni í Barnahúsi eða öðru sambærilegu húsnæði, en ekki hjá lögreglu og dómstólum. Barnahús er hús sem hefur verið útbúið sérstaklega fyrir börn og þar vinnur fólk sem hefur sérþekkingu til þess að hjálpa börnum sem hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Börn á öllum aldri sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eiga líka að fá viðtöl í Barnahúsi til þess að hjálpa þeim að takast á við afleiðingar ofbeldisins. 

Hér á vefsíðu innanríkisráðuneytisins er hægt að lesa bækling með upplýsingum fyrir þolendur afbrota.

Skaðabætur

Börn sem brjóta af sér geta þurft að greiða skaðabætur, t.d. ef þau skemma eitthvað sem aðrir eiga, beita einhvern ofbeldi eða valda skaða með öðrum hætti. Börn geta líka þurft að greiða skaðabætur ef þau valda einhverjum skaða með hættulegri hegðun, jafnvel þó það hafi ekki verið viljandi. 

Hérna skiptir ekki máli hvort barn sé sakhæft eða ekki. Börn sem eru undir 15 ára geta þurft að greiða bætur, þó að þau séu ekki sakhæf. Þegar ákveðið er hvort að barn geti borið ábyrgð á tjóni sem það veldur er ekki miðað við ákveðinn aldur heldur er miðað við það hvort ætla megi að börn á sama aldri og barnið eigi almennt að vita að sú hegðun sem barnið sýndi sé hættuleg eða líkleg til að valda einhverjum skaða. Börn sem eru 10 ára eða jafnvel yngri geta því átt á hættu á að þurfa greiða skaðabætur.

Börn sem hafa orðið fyrir tjóni vegna afbrota geta átt rétt á skaðabótum, til dæmis ef þau verða fyrir líkamlegum skaða eða hlutir þeirra skemmast. Börn sem hafa orðið fyrir alvarlegum brotum geta líka átt rétt á bótum fyrir andlegan skaða, eða svokölluðum miskabótum.

Börn sem vitni

Stundum verða börn vitni af afbrotum. Það getur verið mjög erfitt fyrir börn, sérstaklega þegar um er að ræða alvarleg brot, eins og ofbeldi. Þegar barni líður illa vegna þess að það hefur orðið vitni af broti á það rétt á því að fá aðstoð til þess að vinna úr þeirri reynslu.

Börn sem eru vitni geta þurft að gefa skýrslu, bæði hjá lögreglu og hjá dómstólum. Þegar lögreglan ræðir við barnið á hún að taka tillits til barnsins. Ef barn er ungt eða það hefur orðið vitni af alvarlegu broti á yfirleitt að hafa samband við foreldra og leyfa þeim að vera á staðnum.

Börn sem eru orðin 15 ára verða að mæta fyrir dóm til þess að bera vitni ef óskað er eftir því. Dómari ákveður hvort að barn yngra en 15 ára eigi að bera vitni. 

Börn fanga

Sum börn alast upp við að foreldrar þeirra dveljast í lengri eða skemmri tíma í fangelsi. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að upp vakni ýmsar spurningar, t.d. varðandi það hvernig foreldrið býr, hvort hægt sé að heimsækja foreldri í fangelsi, skrifa því bréf eða hringja í það.

Börn geta komið í heimsóknir í fangelsi til foreldra sinna eða annarra ættingja. Stundum fara heimsóknir barna til foreldris fram utan fangelsis. Heimsóknin á yfirleitt að fara fram í fylgd foreldris eða annars fullorðins aðila. Það má þó leyfa barni að fara einu í heimsókn ef forsjáraðilar samþykkja það, nema það sé ekki talið gott fyrir barnið.

Börn geta hringt í foreldra sína í fangelsum eða skrifað þeim bréf. Foreldrar í fangelsum geta líka hringt í börnin sín eða skrifað þeim bréf.

Ráðgjöf og aðstoð fagfólks

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur framið afbrot er mikilvægt að láta vita. Það er yfirleitt betra að segja sjálfur frá brotum sem maður hefur framið heldur en ef þau koma í ljós seinna. Ef einhver hefur brotið gegn þér er líka mikilvægt að þú segir frá þannig að þú getir fengið þá aðstoð sem þú þarft. 

Barnavernd
Það er mikilvægt að barnavernd viti af því ef barn hefur brotið af sér. Barnavernd á líka að hjálpa börnum sem einhver hefur brotið gegn og börnum sem hafa orðið vitni af alvarlegum brotum. Það er hægt að hringja í 1-1-2 og bera erindið upp við starfsmann Neyðarlínunnar sem kemur skilaboðum áleiðis eða gefur samband við barnaverndarnefnd eða starfsmann hennar. Hér a vefsíðu Barnaverndarstofu er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar um hvernig er best að ná í starfsfólk þeirra.

Lögreglan
Lögreglan veitir upplýsingar og ráðgjöf um afbrot.  Það er hægt að láta lögregluna vita ef maður veit að einhver hefur framið afbrot.  Hér á vefsíðu lögreglunnar er að finna símanúmer hjá öllum lögregluumdæmum landsins.

Neyðarlínan 112
Ef um er að ræða neyðartilvik eða þú sérð einhvern fremja afbrot er hægt að hringja í neyðarlínuna í síma 1-1-2. Það er líka hægt að hafa samband þangað til þess að láta vita ef barn hefur orðið fyrir afbroti eða framið alvarlegt brot, hvort sem um er að ræða neyðartilvik eða ekki. 

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör hér í Spurt og Svarað.

Ítarlegri upplýsingar og tenglar á lög og reglur um afbrot má finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.